Borholuskrá

Leit að borholum:     Borholuskrá     Orkuvefsjá (Borholur > Borstaðir 2015)

jotunn0001

Upplýsingar um borholur hafa verið skráðar í sérstaka borholuskrá á Orkustofnun (OS) (áður Raforkumálaskrifstofunni) um áratuga skeið. Fyrst var um að ræða verkefni Sigurðar Steinþórssonar (1899-1966), en frá 1973-2014 var verkefnið á borði Þorgils Jónassonar, sem vann mikilvægt starf við að finna og skrá upplýsingar um borholur á Íslandi. Upplýsingar um borverk og þar með borholur hafa verið skráðar í gagnagrunn stofnunarinnar frá júlí 1989. Hver hola fær í upphafi sérstakt einkvæmt auðkennisnúmer (áður nefnt staðarnúmer) og eru allar upplýsingar um holuna, rannsóknir eða framkvæmdir tengdar því númeri. Þannig má halda utan um og nálgast upplýsingar með skilvirkum hætti.

Þann 16. október 2015 voru skráðar í borholuskrá OS upplýsingar um alls 13 518 borholur á Íslandi. Elsta skráða borholan í skránni er frá leitinni að köldu vatni í Vatnsmýrinni veturinn 1904 til 1905. Borholur eru ýmist í eigu orkufyrirtækja, sveitarfélaga, ríkisins eða einkaaðila. Nýting þeirra er með ýmsum hætti og tengist hún meðal annars hitaveitum, vatnsveitum, jarðgangagerð, stíflustæðum og undirstöðum mannvirkja svo eitthvað sé nefnt. 

Átta efnisþættir úr borholuskrá OS voru fyrir nokkrum árum valdir úr skránni og gerðir leitarbærir á vefsíðu stofnunarinnar: auðkennisnúmer, borholunafn, staðarheiti, ár, dýpi, sveitarfélag, eldri hreppur og tilgangur borunar. Tilgangur borunar flokkast á eftirfarandi hátt:  gufuöflun, heitavatnsöflun, hitastigulshola, rannsóknahola, sjótaka, virkjanarannsóknir, kaldavatnshola, niðurdælingarhola, písahola, jarðskautshola, gullleit, mannvirkjagerð, skolvatnshola og leitarhola. Svonefndar „borróholur“ boraðar til að finna þykkt lausra jarðlaga, eru í borholuskránni en koma ekki fram hér og sama er að segja um holur boraðar erlendis á vegum íslenskra aðila. Annað og óþekkt er hér síðan sett í einn flokk.

Í nóvember 2015 var sett inn á vefinn ný uppfærsla af borholuskrá OS, þar sem mögulegt er að fá nánari upplýsingar um hverja borholu. Með því að gera leit eins og áður fæst listi yfir átta atriði úr skránni. Fremst í listanum er auðkennisnúmer (áður nefnt staðarnúmer) og með því að smella á það kemur fram ný undirsíða með samtals 23 atriðum um viðkomandi borholu. Hér má sjá skýringar við ítarlegri framsetningu skráningarinnar.

Landfræðileg framsetning á uppfærðum upplýsingum úr borholuskránni er nú aðgengileg í Orkuvefsjá, undir Borholur > Borstaðir 2015 (mikilvægt er að velja myndgrunn áður en þekja fyrir borholur er valin). Slíkar upplýsingar voru áður birtar fyrst í Gagnavefsjá sem nú er aflögð, en síðar á sérstöku prufusvæði Orkuvefsjár. Það var gert þar sem staðsetningarhnit þóttu ekki nægjanlega góð til birtingar í Orkuvefsjá. Nú hefur verið gert átak í þeim efnum í vissum landshlutum og er stefnt að því á næstu árum að taka ný staðsetningarhnit og ljósmyndir af sem flestum eldri borholum landsins. Slíkt er þó bæði tímafrekt og kostnaðarsamt samstarfsverkefni margra, sem mun taka sinn tíma. Kerfisbundin yfirferð eftir svæðum hófst á Vestfjörðum 2011 og var síðan fram haldið í Dölum 2014 og í fleiri landshlutum 2015. Í ársbyrjun 2016 munu nokkur svæði bætast inn í gagnaþekju sem mun sýna þau svæði sem yfirfarin hafa verið að þessu leyti. 

Ef þörf er á nánari upplýsingum úr borholuskránni, vinsamlegast hafið samband við Orkustofnun (Þórunn E. Sighvats eða Sigurður Elías Hjaltason).

Skýringar við efnisflokka borholuskrár
Skýringar við tilgangsflokka borholuskrár
Birting gagna úr borholuskrá í kortasjá
Orkuvefsjá > Borholur