Fréttir


Valgarður - Gagnagrunnur forðafræðistuðla gerður aðgengilegur

4.12.2018

Orkustofnun hefur opnað á gagnagrunn um forðafræðistuðla. Forðafræðistuðlar eru nýttir til að ákvarða og meta þá eiginleika bergsins sem mestu máli skipta í reikningum á orkuforða og gæfni jarðhitakerfa og nýtast því vel til að meta afkastagetu jarðhitakerfa og vinnsluhæfni.

Síðustu áratugi hefur sýnum verið safnað til að leggja mat á eðliseiginleika íslensks bergs. Gerðar voru mælingar og greiningar á mismunandi bergsýnum. Tilgangur verksins er margþættur. Sem dæmi hefur athyglin beinst að því að meta hvaða áhrif ummyndun hefur á forðafræðilega eiginleika bergsins og þá gæfni jarðhitakerfisins til að hleypa vökva að borholum. Meðal eiginleika bergsýna sem hafa verið metnir og skráðar í gagnagrunninn er lekt mæld með vatni og gasi, virkt grop og heildargrop, reiknuð efnisþyngd og raunefnisþyngd. Skilningur á þessum eiginleikum er grundvöllur líkanreikninga á jarðhitakerfum og spám um viðbrögð kerfanna við mikilli staðbundinni vinnslu miðað við náttúrulegt rennsli. Rannsóknir sem þessar stuðla að bættum spám um viðbrögð jarðhitakerfa við vinnslu og þar með bættri ákvörðunartöku framkvæmdaraðila.

Á sýnatökustað voru boraðir út nokkrir kjarnar úr berginu, oft um þumlungur í þvermáli, á hverjum sýnatökustað og sýnin flokkuð samkvæmt samræmdum staðli. Greiningarlykillinn er sá sami og hefur verið notaður um borsvarf. Berggerðarflokkar eru 24 og ummyndunarstig 6. Alls eru því fyrir hendi 144 greiningarflokkar í gagnagrunninum. Með þunnsneiðagreiningu og röntgengreiningu eru eiginleikar bergsins með tilliti til helstu forðafræðistuðla metnir. Í þessari vinnu hafa margar skýrslur verið gefnar út sem aðgengilegar eru rafrænt frá bókasafni Orkustofnunar þar sem niðurstöðum mælinga og einstakra úttekta eru gerð góð skil. Áleitnum spurningum er reynt að svara í þessum skýrslum: Er hægt að taka mið af mælingum á sýnum sem eru á yfirborði til að draga ályktanir um eðliseiginlega jarðhitakerfisins á nokkurra kílómetra dýpi? Er hægt að taka mið af borholumælingum við mat á forðafræðistuðlum í einstökum jarðhitakerfum eða jafnvel almennt í íslenskum sem erlendum jarðhitakerfum? Þó aldur skýrslnanna sé orðinn nokkur þá standa grunnrannsóknirnar. Mikilvægt er að í tímans rás gleymist þessi verk ekki frá einni kynslóð til þeirrar næstu.

Með þessum áfanga er nú gagnagrunnurinn sjálfur gerður aðgengilegur með rafrænum hætti og er það von Orkustofnunar að með því, ásamt rafrænum aðgangi að útgefnum skýrslum og tímaritsgreinum, sé stuðlað að samþættingu rannsókna á Íslandi fyrir nýtingu jarðhita og þá sérlega til raforkuvinnslu komandi kynslóðum til gagns. Skilningur á eðli jarðhitans er mikilvægur í allri ákvörðun um farsæla nýtingu auðlindarinnar til langs tíma.

Gagnagrunnurinn er nefndur í höfuðið á Valgarði Stefánssyni, en Valgarður var frumkvöðull í jarðhita­rannsóknunum og fylgdi vinnunni eftir um langt skeið. Notkun á gagnagrunninum er öllum frjáls en vísa skal til heimilda við notkun hans.

Nálgast má gagnagrunninn hér.   Notkun á gagnagrunninum krefst þekkingar á gagnagrunnum. Ef slík þekking er ekki til staðar vísast á www.leitir.is með leit að forðafræðistuðlar, forðafræði, petrophysics, petrophysical parameters. Nokkur dæmi um ritverk sem gefin hafa verið út má nálgast  hér.