Fréttir


Útboð verkefna Uppbyggingarsjóðs EES - tækifæri á samstarfi pólskra og íslenskra fyrirtækja í loftslags-, umhverfis- og orkumálum

3.4.2020

Ný áætlun Uppbyggingarsjóðs EES um endurnýjanlega orku, umhverfis- og loftslagsmál var kynnt á ráðstefnu í Varsjá í Póllandi 3. mars, en eitt af helstu markmiðum áætlunarinnar er að að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum í viðkomandi löndum. 

Stuðningur samkvæmt áætluninni beinist að áherslum og verkefnum sem miða að því að bæta loftgæði og umhverfi, þróa hitaveitu- og raforkukerfi og bæta orkunýtni með endurnýjanlegri orku. Áhersla verður lögð á að auka framleiðslu með endurnýjanlegum orkugjöfum, s.s. jarðvarma og litlum vatnsaflsvirkjunum, og unnið verður að mótvægisaðgerðum vegna loftslagsbreytinga og verndun vistkerfa.

Áætlunin felur í sér stuðning á þremur meginsviðum:

 • Endurnýjanleg orka, orkunýtni, orkuöryggi
 • Mótvægisaðgerðir og aðlögun vegna loftslagsbreytinga
 • Verkefni er varða umhverfi og vistkerfi
 • Einnig verður áhersla á tilraunaverkefni er varða hringhagkerfi og notkun lífmassa í orkumálum.

Fjöldi útboða verður auglýstur

Fjöldi útboða á verkefnum verður auglýstur á næstu mánuðum þar sem gefast góð tækifæri til samstarfs milli pólskra og íslenskra fyrirtækja. Aðeins pólsk fyrirtæki geta verið umsækjendur, en íslenskir samstarfsaðilar eru eftirsóttir og umsóknir með íslenskum samstarfsaðila fá aukastig við val á verkefnum. Heildarupphæð styrkveitinga í áætluninni er u.þ.b. 130 milljónir evra. Auk þess er möguleiki á viðbótar lánsfjármögnun frá Póllandi að sömu upphæð. 

Fyrstu átta útboð verkefna á sviði loftslags-, umhverfis- og orkumála

Núna eru fyrstu átta útboð verkefna sem kynnt voru á ráðstefnu í Póllandi 3. mars sl. auglýst, en þau varða sérstaklega loftslags- og umhverfismál. Auglýsing og útboð á öðrum verkefnum sem varða jarðvarma, hitaveitur og vatnsafl, verður kynnt síðar að undangenginni kynningarráðstefnu um slík verkefni.

Þau útboð verkefna sem auglýst eru núna skiptast eftir áherslum.

 • Þrjú útboð verkefna varða verkefni um betri orkunýtni og hagkvæmni í iðnaði (more efficient co-generation (CHP)), hitaveitukerfi sveitarfélaga og í skólabyggingum.
 • Tvö útboð verkefna varða minni losun gróðurhúsalofttegunda og aðlögun að loftslagsbreytingum, þ.e. staðbundnar aðgerðir og vitundarvakning í skólum.
 • Þrjú útboð verkefna varða loftslagsbreytingar og stjórnun vistkerfa, aðgerðir gegn framandi tegundum og kortlagningu og mati á vistkerfisþjónustu.

Síðar verða auglýst útboð á verkefnum er varðar litlar vatnsaflsvirkjanir, jarðvarma, hitaveitur o.fl.

Allar nauðsynlegar upplýsingar sem tengjast útboði þessara verkefna má finna á heimasíðu loftslagsráðuneytis Póllands hér.  Skilafrestur umsókna vegna útboðanna núna er til 3. júní 2020 eða 17. júlí sem fer eftir einstökum útboðum, sjá nánar á áðurnefndri heimasíðu.

Hvernig kemst samstarf á við aðila í Póllandi?

Að komast í samband við pólska umsækjendur getur gerst á nokkra vegu m.a:

 • Fyrirtæki á Íslandi hafa þegar komið á samstarfi við pólska umsækjendur, t.d. á kynningarfundi verkefnisins í Póllandi 3. mars sl. eða á kynningarfundi síðastliðið haust á Íslandi, eða áður.
 • Pólskur umsækjandi getur haft samband við fyrirtæki á Íslandi og óskað eftir samstarfi.
 • Fyrirtæki og einstaklingar á Íslandi geta haft samband við pólska aðila með beiðni um samstarf.
 • Fyrirtæki geta einnig óskað eftir því við Orkustofnun að vera skráð á kynningarvef um hugsanlega samstarfsaðila í Póllandi.
 • Orkustofnun getur aðstoðað við að koma á sambandi milli mögulegra pólskra umsækjenda og fyrirtækja og einstaklinga á Íslandi, sé þess óskað.

Nokkur fyrirtæki frá Íslandi tóku þátt í opnunarráðstefnunni fyrir áætlunina 3. mars í Varsjá vegna loftslags- og umhverfisþátta áætlunarinnar þar sem skipst var á verkefnahugmyndum sem vonandi geta orðið að veruleika. Lögð er áhersla á að þátttaka á þeim fundi er ekki forsenda þess að hægt sé að ganga til verkefnasamvinnu við einn eða fleiri pólska aðila á þessu sviði, heldur byggist slíkt á áhuga, möguleikum og vilja fyrirtækja og einstaklinga, hvort sem það byggist á eldri samböndum eða nýjum.

Kynningarfundur vegna jarðvarma, hitaveitna og vatnsafls, verður kynntur síðar þegar aðstæður leyfa vegna Covid-19.

Nánari upplýsingar veitir Baldur Pétursson Orkustofnun, í síma 569-6000 og á bp@os.is