Fréttir


Útboð verkefna á sviði orkunýtni í Rúmeníu á vegum Uppbyggingarsjóðs EES

28.1.2020

Frestur vegna umsókna um verkefni á sviði orkunýtni í Rúmeníu á vegum Uppbyggingarsjóðs EES, hefur verð framlengdur til 31. mars. 

Orkuáætlunin í Rúmeníu sem studd er af Uppbyggingarsjóði EES, á m.a. að stuðla að bættri nýtingu orku og hagkvæmni, minni notkun jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda til að sporna við loftslagsbreytingum, sem gagnast öllum löndum óháð landamærum.  

Markmið Uppbyggingarsjóðs EES er að efla samvinnu og skapa tengsl milli ríkja EES/EFTA landanna og tekjulægri ríkja innan EES í Austur- og Suður-Evrópu. Með því á að byggja upp þekkingu og kunnáttu til að vinna að samstarfsverkefnum, þróun og uppbyggingu á ýmsum sviðum m.a. orkumálum. Slíkt er m.a. gert með því að koma á tengslum milli fyrirtækja og einstaklinga í þessum löndum fyrir núverandi fjármögnunartímabil sjóðsins og undirbúa möguleg verkefni er ná til orkumála innan áætlunarinnar.  

Innovation Norway er umsjónaraðili orkuáætlunar Uppbyggingarsjóðsins í Rúmeníu en Orkustofnun annast ráðgjöf við Innovation Norway og stjórnvöld í Rúmeníu fyrir hönd utanríkisráðuneytisins á Íslandi, vegna verkefnanna, sem felst í aðstoð við mótun, framkvæmd, útboð og eftirlit áætlana á sviði endurnýjanlegrar orku í viðkomandi löndum svo og að efla tengsl við þessi lönd.

Í október 2018 var haldinn kynningarfundur í Rúmeníu m.a. með aðilum frá Íslandi, sjá hér, þar sem fyrirtækjum gafst kostur á að undirbúa samstarf vegna verkefna á vegum Uppbyggingarsjóðsins. Einnig var haldinn kynningarfundur á Íslandi um þessi verkefni í desember 2018,  hér sjást kynningar frá þeim fundi, m.a. er varðar ferðastyrki til að byggja upp samstarf vegna verkefna.

Vakin er athygli á því að umsóknarfrestur vegna verkefna á sviði orkunýtingar hefur verið framlengdur til 31. mars 2020. Vegna skamms tíma eru áhugasamir aðilar hvattir til að hafa samband sem fyrst við samstarfsaðila í Rúmeníu vegna hugsanlegra tilboða, hafi það ekki þegar verið gert. Frekari upplýsingar orkunýtingarverkefnið má finna á heimasíðu áætlunarinnar hér.