Fréttir


Uppbygging og endurnýjun götulýsingar í Búlgaríu á vegum Uppbyggingarsjóðs EES

24.1.2020

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í fyrsta hluta orkuáætlunar í Búlgaríu á vegum Uppbyggingarsjóðs EES, sem varða uppbyggingu og endurnýjun götulýsingar í Búlgaríu. 

Þessi hluti kallast BGENERGY-2.001 - Rehabilitation and Modernization of Municipal Infrastructure - Systems for External Artificial Lighting of Municipalities

Markmiðið er að auka orkunýtni með því að uppfæra tækni og nútímavæða götulýsingu í sveitarfélögum í Búlgaríu til að auka lífsgæði borgaranna.

Eitt af markmiðum Uppbyggingarsjóðs EES er að efla samvinnu og skapa tengsl milli ríkja Evrópu sem um leið færir aðilum aukna þekkingu og kunnáttu til að vinna að samstarfsverkefnum á ýmsum sviðum. Slíkt er m.a. gert með því að koma á tengslum milli fyrirtækja og einstaklinga í þessum löndum fyrir núverandi fjármögnunartímabil og undirbúa möguleg verkefni fyrir áætlunina.

Orkuáætlunin í Búlgaríu á að stuðla m.a. að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda sem gagnast öllum löndum óháð landamærum.

Orkumálaráðuneyti Búlgaríu er umsjónaraðili áætlunarinnar en Orkustofnun annast ráðgjöf við stjórnvöld í Búlgaríu fyrir hönd utanríkisráðuneytisins á Íslandi.

Í maí 2019 var haldinn kynningarfundur í Búlgaríu m.a. með aðilum frá Íslandi, sjá hér, þar sem fyrirtækjum gafst kostur á að undirbúa samstarf vegna verkefna á vegum Uppbyggingarsjóðsins.

Vakin er athygli á því að umsóknarfrestur er til 20. mars 2020.  Vegna skamms tíma eru áhugasamir aðilar hvattir til að hafa samband sem fyrst við samstarfsaðila í Búlgaríu vegna hugsanlegra tilboða, hafi það ekki þegar verið gert.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu áætlunarinnar hér