Fréttir


Umsögn Orkustofnunar vegna áforma um friðlýsingu Reykjatorfunnar við Hveragerði

17.1.2019

Orkustofnun fagnar því að áformum sé lýst áður en formlegt ferli friðlýsingar er hafið. Af því tilefni hefur stofnunin skilað Umhverfisstofnun umsögn.

Ferli Umhverfisstofnunar gefur færi á víðtækari ábendingum til umhugsunar og umfjöllunar, en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er m.a. kveðið er á um átak í friðlýsingum á svæðum í verndarflokki rammaáætlunar sem og á svæðum sem eru undir ágangi ferðamanna.

Orkustofnun bendir á að gera þurfi fullnægjandi úttekt sem nær til allra þriggja stoða sjálfbærni, þ.e. umhverfislegra, efnahagslegra og samfélagslegra þátta, áður en að friðlýsingu Reykjatorfunnar kemur. Reykjatorfan ásamt Hveragerði og nágrenni er á jarðskjálftasvæði og er jarðhitinn á svæðinu undir áhrifum frá því. Gætt hefur erfiðleika að undanförnu í rekstri vegna hitaveitu fyrir Hveragerðisbæ og þarfa Landbúnaðarháskóla Íslands, eftir jarðskjálftana 2008 vegna breytinga í jarðhitavirkni. Jarðskjálftahrinur munu halda áfram að eiga sér stað á svæðinu. Huga verði að nýjum vinnslusvæðum jarðhita til húshitunar, gróðurhúsaræktunar, iðnaðar og annarrar atvinnusköpunar í Hveragerði. Þegar er jarðhitavinnsla í gangi innan marka fyrirhugaðs friðunarsvæðis. Orkustofnun bendir á að núverandi aflþörf Hveragerðis til hitunar á heimilum og gróðurhúsum sé af stærðargráðunni 15 MW í varma. Hæfilega stór virkjun í raforku í Reykjadal í stíl við t.d. Nesjavallavirkjun eða virkjunina í Svartsengi, þ.e. blönduð jarðvarmavirkjun til upphitunar á vatni til húshitunar í Hveragerði og nágrenni, gæti með afleiddri nýtingu, svo sem gróðurhús, fiskeldi, rafeldsneyti, heilsulindir, böð, ferðaþjónusta, þörungarækt, líftækniiðnaður, snyrtivörur og fæðubótarefni, falið í sér aukna verðmætasköpun og bætta auðlindanýtingu á svæðinu.

Orkustofnun telur það mjög jákvætt að áformum um friðlýsingu sé lýst og færi gefið á athugasemdum og ábendingum, áður en að sjálfu friðlýsingarferlinu kemur og vonar að framangreindar ábendingar geti orðið til góðs á þessu stigi málsins.

Umsögn Orkustofnunar má sjá hér.