Fréttir


Um upprunaábyrgðir

3.3.2020

Mikil umræða hefur undanfarið fram um svokallaðar upprunaábyrgðir sem framleiðendur endurnýjanlegrar raforku hafa leyfi til þess að framselja gegn gjaldi.

Allar þjóðir heimsins virðast vera sammála um að við þurfum hratt og örugglega að auka hlut endurnýjanlegrar raforku í orkubúskap heimsins. Það er líka ljóst að til þess að svo megi verða þurfa að koma til öflugar aðgerðir þar sem þeim sem framleiða og selja vistvæna raforku er umbunað þannig að samkeppnishæfni vistvænnar raforkuframleiðslu batni stöðugt á kostnað raforkuframleiðslu sem hefur mikla losun kolefnis í för með sér eins og t.d. í kolaorkuverum. Nú er það svo að raforka hefur engin persónuleg einkenni eða erfðaefni þannig að þegar hún nær til endanlegs notanda er gjörsamlega ómögulegt að greina hvaðan hún er upprunnin. 

Orkunotendur sem vilja tryggja uppruna þeirrar raforku sem þeir kaupa geta gert það með því að kaupa svokölluð upprunaskírteini sem er einhvers konar ávísanir á ákveðið magn endurnýjanlegrar orku frá tilgreindu orkuveri. Þessi skírteini eru á Íslandi gefin út af Landsneti undir eftirliti Orkustofnunar, sem aftur skilar skýrslum um útgáfuna til eftirlitsstofnunar á vegum Evrópusambandsins, AIB. Í þessu sambandi er mikilvægt að fylgjast með að endurnýjanleg orka sé réttilega skilgreind og mæld og að hún sé aðeins talin fram einu sinni þegar fyrirtæki gera grein fyrir orkunotkun og kolefnisfótspori þeirrar vöru og þjónustu sem þau selja. 

Helsti kosturinn við þetta fyrirkomulag er að það truflar ekki frjáls viðskipti með raforku og hvetur til aukinnar framleiðslu endurnýjanlegrar raforku þar sem hagkvæmni og aðrar forsendur eru með besta móti eins og t.d. á Íslandi. Þannig mun heildarkostnaður við nauðsynleg orkuskipti innan hins sameiginlega markaðar verða mun minni en ella og efnahagur almennt batna sem því nemur. 

Með útgáfu upprunaábyrgða fyrir raforkuframleiðslu okkar færum við sönnur á að hún sé næstum 100 % vistvæn og undir eftirliti alþjóðlegrar stofnunar sem ber ábyrgð á að samræma skráningarkerfi útgefenda upprunaábyrgða. Upprunavottorð og útgáfa þeirra hefur hins vegar engin áhrif á losunarbókhald Íslands fyrir koltvísýring sem byggir á raunverulegum gögnum um losun okkar á þeim sviðum sem bókhaldið nær til. Ekki er hægt að kaupa sig frá losun eða taka á okkur meiri byrðar með kaupum eða sölu á upprunaábyrgðum. Þannig hafa viðskipti með upprunaábyrgðir ekki áhrif á opinbert kolefnisfótspor Íslands og ekki heldur á útreikning á hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í hverju landi. Upprunaábyrgðir hafa eingöngu þann tilgang að sýna fram á að tiltekið magn endurnýjanlegrar orku hafi verið framleitt og hefur upplýsingagjöfin aðeins þýðingu í tengslum við viðskipti með uppruna orkunnar, sbr. tilskipun 2009/28/EB um endurnýjanlega orkugjafa. 

Einstakir raforkukaupendur eru á raforkureikningi sínum upplýstir um hvernig þeim ber að skilgreina uppruna þeirrar raforku sem þeir nota. Ef þeir hafa ekki aflað sér upprunaábyrgða byggir uppruninn á samsetningu þeirrar raforku aðildarlandanna sem er skilgreind utan upprunaábyrgðakerfisins og leiðréttingu vegna mismunar útgefinna upprunaábyrgða og framleiðslu endurnýjanlegrar raforku í viðkomandi landi. 

Nú á öll raforka sem seld er til almennra notenda á Íslandi að hafa upprunaábyrgðir fyrir endurnýjanlega orku. Stóriðjan á Íslandi hefur almennt ekki keypt slík skírteini. Í máli forsvarsmanna fyrirtækjanna hefur komið fram að uppruni raforkunnar hafi ekki áhrif á viðskiptakjör þeirra. Eftir því sem kröfur kaupenda á vöru og þjónustu um lágt kolefnisfótspor munu vaxa á næstu árum má gera ráð fyrir að verðmæti upprunavottorða aukist verulega og því æskilegt að fyrirtæki geti valið um hvort þau vilji kaupa upprunaábyrgðir og markaðssetji framleiðslu og þjónustu sína með tilvísun til notkunar á endurnýjanlegum orkugjöfum. 

Í þessu samhengi er líka rétt að árétta að kerfinu með upprunaábyrgðir var komið á laggirnar til þess að auka samkeppnishæfni vistvænnar orkuvinnslu innan Evrópska Efnahagssvæðisins en ekki til þess að auka sérstaklega samkeppnishæfni fyrirtækja sem eru í sama landi og orkufyrirtækin.

Ítarefni:

Evróputilskipun 2009/28/EB á íslensku:                                                      https://www.efta.int/sites/default/files/documents/legal-texts/eea/other-legal-documents/solr/translated-legal-acts/icelandic/i32009L0028.pdf

Tilskipunin á ensku:                                                                                                                                                      https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/PDF/?uri=CELEX:32009L0028&from=EN