Fréttir


Tilkynning Orkustofnunar um málsmeðferð innsendra hugmynda um vindorkukosti í 4. áfanga rammaáætlunar

21.10.2020

Mikill fjöldi hugmynda um vindorkukosti bárust inn á borð Orkustofnunar í kjölfar auglýsingar stofnunarinnar um virkjunarkosti fyrir 4. áfanga rammaáætlunar. Í ljósi þess að áhugi framkvæmdaraðila á að leggja fram vindorkukosti hefur aukist mjög, og að teknu tilliti til hlutverks Orkustofnunar, skv. 2. gr. laga, nr. 68/2003, sér stofnunin nú tilefni til að skýra málsmeðferð sína á innsendum vindorkukostum fyrir 4. áfanga rammaáætlunar.

Með vísan til 2. mgr. 9. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, telur Orkustofnun að líta beri svo á að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða skv. stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, við skilgreiningu vindorkukosta. Þessi málsmeðferð er óháð þeirri lagaóvissu sem ríkir um stöðu vindorkunnar, sem áður hefur verið fjallað um.

Orkustofnun hefur að þessu sögðu, sent ofangreinda tilkynningu á verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar sem og nýtt og uppfært dreifibréf til framkvæmdaaðila innsendra vindorkukosta. Þar er settur fram nýr listi um gagnakröfur, sem byggir á þeim upplýsingum sem Orkustofnun ber að safna um virkjunarkosti skv. lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Bæði bréfin er hægt að nálgast á vef Orkustofnunar.

Eftir að Orkustofnun hefur yfirfarið þau gögn sem berast frá framkvæmdaraðilum innsendra vindorkukosta, með hliðsjón af ofangreindum lista um gagnakröfur og í kjölfar stjórnsýsluákvörðunar um það hvort viðkomandi kostur sé nægilega skilgreindur, mun stofnunin senda gögnin áfram til verkefnisstjórnar til framhaldsmeðferðar. Tilkynning þess eðlis mun verða send framkvæmdaraðila viðkomandi vindorkukosts og verða birt á vef stofnunarinnar. Ekki verður að þessu sinni farin sú leið að safna gögnum fyrir alla innsenda vindorkukosti sem send yrðu saman í pakka til verkefnisstjórnar, heldur verður hver og einn kostur tekinn fyrir um leið og fullnægjandi gögn hafa borist Orkustofnun.

Tekið skal fram að fyrri framsending Orkustofnunar á gögnum til verkefnisstjórnar yfir innsendar hugmyndir um vindorkukosti til meðferðar í rammaáætlun í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, felur ekki í sér stjórnsýsluákvörðun stofnunarinnar, í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.