Fréttir


Sviðsmyndir um raforkunotkun 2018 - 2050

25.1.2019

Raforkuhópur Orkuspárnefndar hefur í annað sinn tekið saman sviðsmyndir um raforkunotkun sem er viðbót við árlega spá nefndarinnar.

Sjá skýrsluna í heild -    Sviðsmyndir um raforkunotkun 2018 - 2050

Vísir að sviðsmyndum hefur verið í eldri spám þar sem sýndar hafa verið há- og lágspár sem segja má að séu tvær sviðsmyndir. Grunninn að sviðsmyndunum er að finna í endurreiknaðri  Raforkuspá ( OS-2018-03 ) og í Raforkuspá frá 2015 ( OS-2015-05 ).

Nokkur óvissa er í forsendum raforkuspár og á það sérstaklega við um þessar mundir þegar miklar breytingar eru líklega að verða varðandi hagnýtingu orkugjafa til að knýja áfram tæki svo sem í samgöngum og fiskveiðum. Í sviðsmyndunum hefur ýmsum forsendum verið breytt til að kanna áhrif þess að þróun þjóðfélagsins verði nokkuð önnur en miðað er við í raforkuspánni. Hér eru settar fram þrjár sviðsmyndir.

Í sviðsmyndinni Hægar framfarir er gert ráð fyrir minni hagvexti en í Raforkuspá auk þess sem miðað er við forsendur sem leiða til minni áherslu á umhverfismál og orkuskipti. Þessi mynd sýnir hægari vöxt almennrar raforkunotkunar en í Raforkuspá eða að meðaltali 0,9% árlegan vöxt en í Raforkuspá er hann um 1,7% að meðaltali á ári. Almenna notkunin eykst um 35% og verður um 5.450 GWh árið 2050 en í Raforkuspá er aukningin um 70% og notkun um 7.000 GWh.

Í sviðsmyndinni Grænni framtíð er gert ráð fyrir meiri hagvexti en í Raforkuspá og aukinni áherslu á umhverfismál. Má til dæmis nefna að orkuskipti ganga hraðar fyrir sig í sviðsmyndinni en í Raforkuspá og er árlegur vöxtur almennrar raforkunotkunar í þessari sviðsmynd um 2,2%. Almenna notkunin rúmlega tvöfaldast hér til loka spátímabilsins og verður um 8.400 GWh á ári.

Í sviðsmyndinni Aukin stórnotkun er byggt á forsendum Raforkuspár en gert er ráð fyrir aukinni stórnotkun raforku. Til að setja fram dæmi um mögulega þróun stórnotkunar er horft á tímabilið frá 2008 til 2020 og notast við mat á aukningunni á því tímabili sem er 36 MW á ári. Samkvæmt þessari forsendu verður aflþörf stórnotenda orðin rúmlega 3.000 MW árið 2050 og samanlögð orkuþörf almenna markaðarins og stórnotenda um 33.400 GWh.

Í viðauka 2 má finna næmnigreiningu á Raforkuspá frá 2018 en í henni hefur einni forsendu verið breytt í senn til þess að kanna áhrif einstakra forsenda. Er þetta í fyrsta skipti sem næmnigreining er sett fram á Raforkuspá með þessum hætti.