Fréttir


Smávirkjanir í Noregi

14.8.2019

Út er komin skýrsla um smávirkjanir í Noregi, en hún er afrakstur ferðar fulltrúa Orkustofnunar til Noregs sl. vor til að kynna sér hvernig þar hefur verið staðið að uppbyggingu á virkjunum í vatnsafli sem eru minni en 10 MW.

Félag smávirkjanabænda (Småkraftforeninga) var heimsótt og auk funda með þeim höfðu verið skipulagðir fræðslufundi með ýmsum aðilum eins og  Norges vassdrags- og energidirektorat (NVE) sem er systurstofnun Orkustofnunar þar í landi. Einnig var fundað með öðrum aðilum s.s. fyrirtækjum sem taka að sér að fjármagna, byggja upp og reka smávirkjanir í Noregi.

NVE hefur stutt mjög dyggilega við uppbyggingu smávirkjana í Noregi og hefur meðal annars kortlagt mögulega virkjunarkosti. Þá vinnu hafa aðilar getað nýtt sér til frekari þróunar slíkra verkefna, enda hafa smáaðilar takmarkaða getu til að sinna slíku.  

Í Noregi eru u.þ.b. 2000 slíkar virkjanir og hefur þeim fjölgað ört á þessari öld þar sem stjórnvöld lögðu fé til þess að hægt væri að kortleggja alla virkjunarkosti í vatnsafli og nota reiknilíkön svipuð þeim sem Vatnaskil og Veðurstofan hafa yfir að ráða hér á Íslandi til að spá fyrir um rennsli í vatnsföllunum. 

Í kringum uppbygginguna hafa orðið til fyrirtæki sem taka að sér að sjá um allan undirbúning fyrir byggingu virkjunar, fjármögnun, hönnun og leyfi og gera samninga við bændur til 40 eða 60 ára um prósentur af veltu eða tekjum virkjunarinnar.

Þessi fyrirtæki reyna að nýta eins og kostur er vinnuafl og tækjabúnað í nágrenni við virkjanirnar og ráða almennt bóndann í vinnu við að sjá um eftirlit og viðhald á virkjuninni. Bóndinn fær þá þjálfun í þeim verkefnum sem hann þarf að sinna og er til staðar ef eitthvað óvænt kemur upp á. 

Með þessu móti hefur viðkomandi bóndi í senn tekjur af því að leigja vatnsréttindin og af vinnu við að sinna virkjuninni. Þar sem tekjustreymi hans frá virkjuninni er háð því að rekstur og viðhald séu í góðu lagi og að rösklega sé brugðist við ef eitthvað ber út af, þá er hann án nokkurs vafa besti maðurinn til að halda virkjuninni gangandi. Í þessu ferli er því hugað jafnt að efnahags-, samfélags- og umhverfisatriðum á viðkomandi svæði.

Auk þess að hafa veitt fjármagni til þess að kortleggja alla virkjunarkosti í Noregi styrkir norska ríkið samtök smávirkjanabænda svo þau geti haldið út öflugri starfsemi. Samtökin eru með einn mann í fullri vinnu í Osló og síðan fá stjórnarmenn laun fyrir sín störf.

Lykillinn að því að uppbyggingin hefur gengið hratt er að það hefur verið samkeppni á markaðnum milli fyrirtækjanna svo bændur hafa að jafnaði úr einhverjum mismunandi tilboðum að velja.

Þann 17, október n.k. verður ráðstefna á vegum Orkustofnunar á Grand Hótel, þar sem fjallað verður nánar um þessi mál og mun m.a. fulltrúi félags smávirkjanabænda í Noregi fjalla um smávirkjanir í Noregi.

Nánari upplýsingar veitir, Erla Björk Þorgeirsdóttir, verkefnastjóri - skipulag raforkuvinnslu.

Sjá skýrsluna í heild hér  - Smávirkjanir í Noregi