Fréttir


Skýrslur um möguleika á smærri vatnsaflsvirkjunum

15.8.2019

Út eru komnar sjö skýrslur um smávirkjanir í vatnsafli þar sem Orkustofnun hefur látið vinna úr gögnum um rennsli, smárra vatnsfalla víða um land.  

Veðurstofan og  verkfræðistofan Vatnaskil reiknuðu út langæislínur að beiðni Orkustofnunar og voru útreikningarnir nýttir til að meta mögulegt afl og orkugetu hinna ýmsu virkjunarkosta.

Gögnin voru borin saman við sambærilegt mat Mannvits og Eflu á þeim virkjunarkostum sem fyrirtækin höfðu einnig metið. Ljóst er af samanburði á mati mismunandi aðila að nauðsynlegt er að framkvæmdar séu mælingar á rennsli til að tryggja að hönnun á stærð virkjunar verði sem hagkvæmust.

Tilgangurinn með með þessum skýrslum sem eru hluti af smávirkjanaverkefni Orkustofnunar, er að efla raforkuframleiðslu út um land, til að auka orkuöryggi, ekki síst vegna þess að rammaáætlun hefur verið strand síðan 2016, og langan tíma tekur almennt að byggja upp orkumannvirki. Einnig er mikilvægt að auka raforkuframleiðslu til að halda í við aukna eftirspurn eftir rafmagni, vegna mannfjölgunar á Íslandi, þó að ekki komi til frekari stóriðja. 

Aukinn tekjustraumur til landeigenda/bænda, sveitarfélaga og annarra á viðkomandi svæði getur jafnframt stutt við búsetu víða um land. Litlar vatnsaflsvirkjanir geta aukið möguleika á uppbyggingu smærri atvinnustarfsemi og eflt þannig efnahag og bætt lífskjör í nærumhverfi sínu. 

Flutningskerfið hefur einnig um áraraðir verið fullnýtt og ræður illa við að miðla meiri raforku út um land. Dreifð raforkuframleiðsla getur dregið úr álagi á flutnings- og dreifikerfi raforku og aukið um leið orkuöryggi og svæðisbundið framboð á raforku.

Þann 17. október stendur til að halda morgunverðarráðstefnu um smávirkjanir sem auglýst verður síðar.

Nánari upplýsingar veitir, Erla Björk Þorgeirsdóttir, verkefnastjóri - skipulag raforkuvinnslu. 

Skýrslurnar sem um ræðir má sjá hér:

      Smávirkjanir - Mat á rennsli, afli og orkugetu - Dalvíkurbyggð

      Smávirkjanir - Mat á rennsli, afli og orkugetu - Eyjafjörður og nágrenni

      Smávirkjanir - Mat á rennsli, afli og orkugetu - Snæfellsbær

      Smávirkjanir - Mat á rennsli, afli og orkugetu - Vestfirðir

      Smávirkjanir - Mat á rennsli, afli og orkugetu

      Smávirkjanir - Hugmyndir að smávirkjunum á grundvelli gagna frá Veðurstofu Íslands árið 2018

      Teikningar af helstu mannvirkjum fyrir virkjanahugmyndir í Snæfellsbæ og á Norðurlandi