Fréttir


Skýrsla Orkustofnunar um starfsemi raforkueftirlitsins 2017

7.11.2018

Orkustofnun hefur gefið út skýrslu um starfsemi raforkueftirlits fyrir rekstrarárið 2017 

Eftirlit Orkustofnunar með aðilum á raforkumarkaði byggir á ákvæðum raforkulaga nr. 65/2003. Ákvæði raforkulaga byggja á tilskipunum á sviði raforkumála sem innleiddar hafa verið í íslenska löggjöf á grundvelli aðildar Íslands að EES samningnum. Í annarri raforkutilskipuninni (tilskipun 2003/54/EB), sem innleidd hefur verið í íslensk lög með raforkulögum, er kveðið sérstaklega á um skyldu eftirlitsaðila til skýrslugjafar en í 23. gr. tilskipunarinnar kemur fram að eftirlitsaðilar eigi að gera grein fyrir því í árlegri skýrslu hvernig rafmagnseftirliti samkvæmt ákvæðinu hefur verið framfylgt.

Markmið með starfsemi raforkueftirlits Orkustofnunar er að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku að teknu tilliti til takmarkana sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna. Enn fremur á raforkueftirlitið að stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku, tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda. Síðast en ekki síst á svo eftirlit Orkustofnunar að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og taka á tillit til umhverfissjónarmiða þegar Orkustofnun fjallar um starfsemi eftirlitsskyldra aðila.

Verkefni raforkueftirlits eru afar fjölbreytileg og ekki öll fyrirsjáanleg. Stærstu málaflokkarnir varða almenn raforkueftirlitsmál, greiningu og úttektir, lögfræðileg mál vegna stjórnsýslukæra og kvartana ásamt vinnu vegna tekjumarka. Þá er eitt af hlutverkum Orkustofnunar að meta og afgreiða kerfisáætlun Landsnets en með þessu hlutverki er verið að innleiða nýtt verklag sem á að taka við af eldra verklagi Orkustofnunar við að veita leyfi fyrir nýjum flutningsvirkjum.

Tekjumörk sérleyfisfyrirtækjanna námu u.þ.b. 34 milljörðum króna árið 2017, annars vegar um 20 milljarðar til dreifiveitna og hins vegar um 14 milljarðar til flutningsfyrirtækis. Til að tryggja að markmiðum raforkulaga sé náð, þarf einnig að sinna eftirliti með öðrum þáttum í starfsemi flutningsfyrirtækisins, Landsnets og dreifiveitnanna.

Orkustofnun tók þátt í verkefni um orkuöryggi og stefnu í orkumálum á Íslandi í samvinnu við Landsvirkjun og Landsnet. Verkefnið var tvíþætt; annars vegar greining á raforkuöryggi raforkukerfis landsins og hins vegar greining á lagaumhverfi og framkvæmd raforkueftirlits. Háskólastofnanirnar MIT og IIT Comillas voru fengnar til að vinna rannsóknarvinnu, þar sem áhersla er á eftirfarandi þætt:

  •    Greining á stöðu orkuöryggis með tilliti til laga- og reglugerðarumhverfis og tillögur að úrbótum.
  •     Athugun á nokkrum sviðsmyndum í því skyni að finna leiðir til að tryggja orkuöryggi á sem hagkvæmastan hátt. 
  •     Helstu niðurstöður verkefnisins voru birtar í sitt hvorri skýrslunni og kynntar á ráðstefnu á vegum Orkustofnunar í         febrúar 2017.

 Á vef Orkustofnunar má finna glærur með helstu niðurstöðum verkefnisins ásamt skýrslunni.

Í frumvarpi um núverandi raforkulög kemur  fram að til þess að tryggja nægilegt framboð raforku á sviði framleiðslu og flutningsgetu sé lykilatriðið að efnahagslegir hvatar séu til staðar til að byggja nýjar virkjanir með nægjanlega löngum fyrirvara fyrir vaxandi eftirspurn.

Það má því færa fyrir því rök að þær aðstæður sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að tryggja nægjanlegt framboð raforku sé ekki til staðar. Því er mikilvægt að tryggt sé að umgjörð raforkuframleiðslu, lagasetning og skipulag á raforkumarkaði sé þannig úr garði gert að hægt sé að bregðast við aðstæðum þar sem raforkuöryggi er ógnað.

Margvíslegar aðrar upplýsingar má finna i skýrslu um starfsemi raforkueftirlitsins 2017 s.s. atriði er varða eftirlit með raforkugæðum og afhendingaröryggi.  Skýrsluna má finna hér.