Fréttir


Skilafrestur er framlengdur um tvo mánuði - vegna útboða Uppbyggingarsjóðs EES í Póllandi vegna verkefna á sviði loftslags-, umhverfis- og orkumála

8.5.2020

Ný áætlun Uppbyggingarsjóðs EES um loftslags-, umhverfis- og orkumál var kynnt á ráðstefnu í Varsjá í Póllandi 3. mars, sl. en eitt af helstu markmiðum áætlunarinnar er að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum í viðkomandi löndum.

Áætlunin er einnig sú allra stærsta er varðar loftslags-, umhverfis- og orkumál á vegum Uppbyggingarsjóðsins en 140 milljónum evra verður varið til áætlunarinnar og auk þess mun Pólland leggja til sömu upphæð í formi lána og styrkja og heildarfjármagn verður því 280 milljónir evra eða um 40 milljarðar króna. Umfang verkefnanna getur þó verið mun meira eða allt að 65 milljarðar króna þar sem styrkir Uppbyggingarsjóðsins eru einungis hluti af heildarfjárhæð verkefnanna. Umtalsverð tækifæri eru á samstarfi á milli aðila á Íslandi og í Póllandi í tengslum við þessi verkefni.

Skilafrestur umsókna framlengist um 2 mánuði

Í tengslum við heimsfaraldur kórónavírus og beiðnir margra stofnana og fyrirtækja, hefur loftslagsráðherra Póllands ákveðið að framlengja frest til að skila inn umsóknum vegna verkefnanna sem kynnt voru 13. mars sl.

Skilafrestur umsókna er framlengdur um 2 mánuði skv. eftirfarandi tímaáætlun:

1. Umhverfi og vistkerfi.

  • Styrkir vegna smáverkefna (Small Grant Scheme) fyrir frjáls félagasamtök vegna starfsemi sem ætlað er að vernda og auka þekkingu á vistkerfum – framlengist frá 3. júní til 3. ágúst 2020.
  • Aukin vernd gegn framandi tegundum – framlengist frá 3. júní til 3. ágúst 2020.
  • Framkvæmd áætlana um vistkerfisstjórnun – framlengist frá 3. júní til 3. ágúst 2020.


2. Mótvægisaðgerðir og aðlögun vegna loftslagsbreytinga

  • Fjárfestingar í græn-bláum innviðum í borgum – framlengist frá 15. júní til 17. ágúst 2020.
  • Vitundarvakning um aðlögun og mótvægisaðgerðir vegna loftslagsbreytinga – framlengist frá 15. júní til 17. ágúst 2020.


3. Endurnýjanlegir orkugjafar, orkunýtni og orkuöryggi

  • Orkunýtni í orkuframleiðslu á raforku og hita (cogeneration) fyrir iðnað og fagaðila – framlengist frá 30. júní til 31. ágúst 2020.
  • Aukin orkunýtni í skólabyggingum – framlengist frá 15. júlí til 14. september 2020.
  • Uppbygging og/eða endurnýjun hitaveitna og lokun á einstaka mengandi hitagjöfum – framlengist frá 30. júní til 31. ágúst 2020.


Nánari upplýsingar á ensku má sjá hér, á vef loftslagsráðuneytis Póllands

Upplýsingar um útboð verkefnanna voru áður birt á heimasíðu loftslagsráðuneytisins og Landsjóðs fyrir umhverfis- og vatnsvernd.

Sjá einnig fyrri fréttir um verkefnið:

Forsetar og ráðherrar tóku þátt í kynningu á nýrri áætlun Uppbyggingarsjóðs EES um loftslags-, umhverfis- og orkumál í Póllandi, 3. mars sl.

Sjá má frétt um árangursríka ráðstefnu sem haldin var á Íslandi um samstarf á sviði jarðhita milli Íslands, Póllands og Rúmeníu, innan Uppbyggingarsjóðs EES 23. október 2019. Þar má einnig sjá fyrirlestur aðila sem geta tengst mögulegum verkefnum i Póllandi, eins og t.d. Chamber of Commerce Polish Districht Heating.

Unnið er við að setja upp lista af fyrirtækjum / aðilum í Póllandi, Íslandi og Noregi á vef ráðuneytis loftslagsmála í Póllandi og verið er að bæta við fyrirtækjum frá Íslandi á þann lista. Þau fyrirtæki á Íslandi sem vilja láta bæta sér á þennan lista eru beðin að láta Orkustofnun vita – sem gæti auðveldað aðilum að fá fyrirspurnir frá Póllandi.