Raforkuspá fyrir 2020-2060 er komin út
Raforkuhópur orkuspárnefndar Orkustofnunar hefur gefið út Raforkuspá fyrir tímabilið 2020-2060 . Í skýrslunni er fjallað um raforkunotkun frá 2020 til 2060 og sviðsmyndir um raforkunotkun. Spáin er unnin á vegum orkuspárnefndar. Orkuspárnefnd hefur séð um samræmingu á almennum forsendum raforkuspár, jarðvarmaspár og eldsneytisspár.
Forsendur raforkuspárinnar
Spáin er m.a. byggð á forsendum um mannfjölda, fjölda heimila, landsframleiðslu og framleiðslu einstakra atvinnugreina.
Spáð er fyrir um alla raforkunotkun nema notkun stórnotenda, en hjá þeim er einungis er tekin með í spána sú raforkunotkun sem er í þegar gerðum samningum (sjá þó sviðsmyndina “Aukin stórnotkun”).
Raforkuspáin spáir aðeins fyrir um eftirspurn eftir raforku og er ekki lagt mat á hvort það sé nægt framboð raforku til mæta þörfinni
Sviðsmyndir
Til viðbótar við raforkuspána eru gerðar spár fyrir þrjár mismunandi sviðsmyndir:
Hægar framfarir: Hér er gert ráð fyrir minni hagvöxt en í aðalspánni og einnig er gert er ráð fyrir minni áherslu á orkuskipti en í aðalspá.
Græn framtíð: Hér er gert ráð fyrir meiri áherslu á orkuskipti en í aðalspánni, þó er ekki mjög mikill munur á þeirri sviðsmynd og aðalspánni, því spáin gerir ráð fyrir umtalsverðri orkunotkun í orkuskiptum á spátímanum til samræmis við áherslur stjórnvalda.
Aukin stórnotkun: Hér er gert ráð fyrir meiri stórnotkun en í aðalspánni. Gert er ráð fyrir svipaðri aukningu eins og verið hefur á síðustu árum í gagnaverum og annarri starfsemi. Þessi spá gæti verið vísir um aukna orkuþörf ef farið verður að framleiða eldsneyti með raforku.
Helstu niðurstöður
- Orkusparnaður heimila hefur verið töluverður á síðustu árum í lýsingu og sparneytnari heimilistækjum. Spáin reiknar með að þessi þróun haldi áfram en hægist þó á henni.
- Gert er ráð fyrir að umtalsverð orkuskipti eigi sér stað á spátímabilinu, fyrst og fremst í samgöngum. Gert er ráð fyrir að fólksbifreiðar verði að stórum hluta rafknúnar og síðan taki við sendibifreiðar, vörubifreiðar og hópferðabifreiðar, ferjur, skip og annað.
- Áhrif COVID eru greinanleg í spánni, því stóriðja hefur dregist nokkuð saman í ár, en ekki mælast mikil áhrif á almenna notkun. Gert er ráð fyrir að þjóðfélagið vinni sig hratt upp úr þeirri niðursveiflu og að á árunum 2022 til 2023 verði stóriðjunotkunin komin í fyrra horf.
- Mikil óvissa er varðandi uppsjávarafla en miðað er við tölur frá Hafrannsóknar-stofnun um áætlaðan afla á komandi árum.
Nálgast má spána í heild sinni hér : Raforkuspá 2020-2060
Nánari upplýsingar veita Rán Jónsdóttir eða Guðni A. Jóhannesson hjá Orkustofnun s. 569 6000 eða netfang os@os.is
Á mynd 1 má sjá heildarorkunotkun á landinu til 2019 og samkvæmt raforkuspá eftir það.
Á mynd 2 má sjá áhrif orkuskipta í samgöngum á raforkunotkun á spátímanum.
Á mynd 3 má sjá þær mismunandi sviðsmyndir sem settar eru fram í raforkuspánni.