Raforkuspá 2019-2050 er komin út
Í skýrslunni er fjallað um raforkunotkun fram til ársins 2050 og sviðsmyndir um raforkunotkun. Hún er unnin á vegum orkuspárnefndar og er endurreikningur á spá frá 2015 út frá nýjum gögnum og breyttum forsendum.
Spáin er m.a. byggð á forsendum um mannfjölda, fjölda heimila, landsframleiðslu og framleiðslu einstakra atvinnugreina. Notkuninni er skipt niður í sex meginnotkunarflokka auk dreifi- og flutningstapa. Auk þess er henni skipt eftir því frá hvaða kerfishluta orkan er afhent, þ.e. beint frá virkjun, frá flutningskerfinu eða frá dreifikerfum, og eftir tegund afhendingar þar sem um er að ræða forgangsorku og orku með skerðanlegum flutningi. Fyrir notkun frá flutningskerfinu (stórnotendur sbr. skilgreiningu raforkulaga) er einungis tekin með í spána sú orka sem fram kemur í þegar gerðum samningum og eru án allra fyrirvara um afhendingu.
Raforkuhópur orkuspárnefndar (2018a) hefur farið yfir forsendur síðustu raforkuspár, frá 2015, út frá nýjum gögnum sem borist hafa frá því spáin kom út (sjá ritaskrá varðandi nýjar upplýsingar bls. 41-42).
- Raforkuvinnsla á landinu árið 2018 var alls 19.830 GWh eða 283 GWh minni en spáin frá 2015 gerði ráð fyrir og heildarálag á kerfið var 29 MW minna en áætlað var, sjá töflu 4.2 á bls. 28. Stafar þessi breyting af minni notkun sem fædd er frá flutningskerfinu (stórnotendur) og dreifikerfinu (almenn notkun) auk þess sem flutningstöp eru hlutfallslega minni en gert var ráð fyrir árið 2015. Mest munar hér um verksmiðju United Silicon sem ekki var í rekstri 2018. Úttekt frá virkjunum var aftur á móti meiri en spáð var.
- Notkun tekin frá flutningskerfinu (stórnotendur) var 15.260 GWh sem er 128 GWh minni en spáin frá 2015 gerði ráð fyrir og þar af var frávikið frá spánni hjá álfyrirtækjum 62 GWh og hjá United Silicon og PCC Bakki samtals 534 GWh. Járnblendið og Becromal notuðu 37 GWh minni orku miðað við spána frá 2015 Um áramótin 2015/2016 fluttist raforkuafhending til gagnavers Advania frá dreifikerfinu til flutningskerfisins og ef sú breyting hefði ekki komið til hefði þetta frávik verið meira eða um 557 GWh. Notkun gagnavera á orku sem fædd var frá flutningskerfinu var um 500 GWh meiri en spáin frá 2015 gerði ráð fyrir.
- Þar sem orkuskipti í samgöngum hafa gengið heldur hraðar fyrir sig að undanförnu en gert var ráð fyrir í spánni frá 2015 var þeim nú flýtt um þrjú ár frá endurreikningi síðasta árs, sem hefur þau áhrif að orkunotkun á heimilum og þjónustu eykst á árunum 2020 til 2030. Í endurreikningi 2017 komu inn nýjar upplýsingar um bifreiðatíðni sem höfðu einnig í för með sér aukna raforkunotkun heimila vegna samgangna. Niðurstaðan verður aukning um 130 GWh við lok spátímabilsins en raforkunotkun í samgöngum verður alls rúm 1 TWh við lok spátímabilsins.
Sjá skýrsluna í heild hér:
Raforkuspá 2019-2050. Endurreikningur á spá frá 2015 út frá nýjum gögnum og breyttum forsendum
Raforkuspá 2019-2050. Töflur í excel-skjali.