Fréttir


Raforkunotkun ársins 2019

28.4.2020

Minnkun raforkunotkunar, bæði stórnotkunar og almennrar notkunar

Raforkuhópur Orkuspárnefndar hefur metið helstu atriði er varðar raforkunotkun ársins 2019.

Árið 2019 nam raforkuvinnsla á landinu samtals 19.489 GWh og minnkaði um -341 GWh eða um - 1,7% frá fyrra ári. Þessi samdráttur skipist þannig niður á meginþætti að notkun fædd frá flutningskerfinu (stórnotkun) nam 15.146 GWh á árinu 2019 og minnkaði um -113 GWh eða -0,7%. Almenn notkun minnkaði alls um -195 GWh eða -4,7% og nam 3.977 GWh. Töp við flutning orkunnar frá virkjunum til almenningsveitna og stórnotenda voru 366 GWh og minnkuðu um -32 GWh eða -8,1%. Minnkun raforkuvinnslu á síðasta ári stafar að mestu af eftirfarandi þáttu

  • Stórnotkun minnkaði mest hjá álverunum eða um - 444 GWh sem er -3,4% minnkun frá fyrra ári. Meginástæða þessa samdráttar voru rekstrarvandamála hjá álverinu í Straumsvík. Einnig var samdráttur hjá öðrum eldri stóriðjunotendum eða um -229 GWh sem er -14,3%. Nýjustu stórnotendurnir juku aftur á móti notkun sína um 560 GWh og eru gagnaver með tæplega ¾ þeirrar aukningar. Þessi aukning fer því langt með að mæta samdrætti hjá eldri notendum þannig að notkunin minnkaði í þessum geira í heild um -113 GWh.
  • Árið 2019 var um 0,7°C hlýrra miðað við lofthita í Reykjavík sem leiðir af sér minni almenna raforkunotkun svo sem til hitunar húsnæðis og dælingar hjá hitaveitum. Slík hitaáhrif eru metin vera lækkun á raforkunotkun um -45 GWh .
  • Loðnubrestur síðasta árs leiðir af sér verulega minnkun í raforkunotkun fiskimjölsverksmiðja sem er orkufrekasta almenna iðnaðarstarfsemin hér á landi. Þetta hefur mest áhrif á skerðanlega raforkunotkun sem minnkaði um -84 GWh í þessum geira eða um -36%. Þetta veldur einnig minnkun forgangsorku svo sem vegna frystingar á loðnu en einnig er nokkur forgangorkunotkun við fiskimjölsvinnslu og þar minnkaði notkunin um -29 GWh eða um -33%.
  • Mikill hagvöxtur hefur verið undanfarin þrjú ár en hann var 6,6% árið 2016, 4,5% árið 2017, 3,8% árið 2018 og 1,9% árið 2019. Minnkandi hagvöxtur kemur fljótt fram í raforkunotkun og að undanförnu hefur ýmiss smáiðnaður átt í erfiðri samkeppnisstöðu við innflutning og því dregist saman svo sem prentiðnaður og minnkaði forgagnsorkunotkun í slíkum iðnaði um -16GWh eða um -6,0%.
  • Á undanförnum árum hefur orðið mikil breyting á orkuþörf til lýsingar og mörg tæki hafa orðið orkugrennri. Þetta kemur t.d. mjög skýrt fram í orkunotkun heimila, sem hefur farið minnkandi. Rafbílavæðing með hleðslu á heimilum hefur ekki komið neitt að ráði á móti þessari minnkun. Í atvinnufyrirtækjum hefur notkun til lýsingar einnig minnkað af þessum sökum og einnig vegna betri stýringar á lýsingunni.
  • Minnkun flutningstapa, en þau voru -32 GWh minni sem er -8,1% minnkun frá fyrra ári en töpin voru óeðlilega mikil árið 2018 vegna rekstraraðstæðna.


Greinargerð raforkuhópsins í heild sinni má sjá hér.