Raforkunotkun ársins 2017
Áfram lítil aukning á höfuðborgarsvæðinu
Árið 2017 nam raforkuvinnsla á landinu samtals 19.239 GWh og jókst um 690 GWh eða um 3,7% frá fyrra ári. Notkun fædd frá flutningskerfinu (stórnotkun) nam 14.870 GWh á árinu 2017 og jókst um 3,7% frá fyrra ári. Almenn notkun (forgangs- og skerðanleg orka) jókst einnig um 3,7% og nam 3.995 GWh. Töp við flutning orkunnar frá virkjunum til almenningsveitna og stórnotenda voru 373 GWh og jukust um 3,5%.
Aukning almennrar raforkunotkunar á síðasta ári stafar að mestu af eftirfarandi þáttum:
· Hitafar var svipað fyrstu níu mánuði ársins 2017 og árið á undan en síðasti ársfjórðungurinn var mun kaldari þannig að lofthiti í Reykjavík var að meðaltali um 0,5°C lægri árið 2017 en árið á undan (tölur leiðréttar út frá lofthita eru sýndar innan sviga þar sem slíkt á við).
· Loðnuafli var mun meiri árið 2017 (um 350 þús. tonn) en árið 2016 (um 100 þús. tonn) en vinnsla loðnu kallar á verulega raforkunotkun og er hún að stórum hluta afhent sem skerðanleg orka.
· Mikill hagvöxtur undanfarin tvö ár en hann var rúm 7% árið 2016 og tæp 4% árið 2017.
Hér má sjá nánari upplýsingar um raforkunotkun 2017, frá Raforkuhópi Orkuspárnefndar.