Rafbílar telja fimmfalt
Vísað er í grein Sigríðar Á. Andersen í Morgunblaðinu 26. júní sl. Þar er því haldið fram að orkunotkun rafbíla telji ekki með í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands um hlut endurnýjanlegs eldsneytis í samgögnum á landi.
Það er þvert á móti því orkunotkun rafbíla
telur fimmfalt. Regluverk á þessi sviði er margþætt og Orkustofnun er því ljúft
og skylt að skýra helstu atriði í stuttu máli.
Samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um
endurnýjanlegt eldsneyti, nr. 2009/28/EB, og nefnist á ensku Renewable Energy
Directive, skulu ríki ná a.m.k. 10% orkuhlutfalli af endurnýjanlegu eldsneyti í
samgöngum á landi árið 2020. Ísland er á góðri leið með að ná þeim markmiðum en
árið 2019 var hlutfallið 9,2%. Það skiptist svo: lífdísilolía 4,5%, rafmagn
2,8%, etanól 1,1% og metan 0,7%. Við útreikning á hlutfallinu er raforkunotkun
rafbíla fimmfölduð þar sem tekið er tillit til þess að rafbílar nýta raforkuna
mun betur en hefðbundnir bílar nýta jarðefnaeldsneyti. Raforkunotkun rafbíla er
áætluð út frá fjölda skráðra rafbíla og heimahleðsla því tekin með þó hún sé
ekki mæld sérstaklega. Einnig er heimilt að margfalda orkugildi eldsneytis sem
framleitt er úr úrgangi með tveimur og nýtur metanframleiðslan góðs af því.
Markmið stjórnvalda er að auka hlutdeild
endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldneytis í samgöngum á landi í 10%
árið 2020 og 40% árið 2030. Til að ná þessum markmiðum voru meðal annars sett
lög um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013, sem byggja á
fyrrnefndri tilskipun. Með lögunum er gerð sú krafa til eldsneytissala að
tryggja að minnst 5% af heildarorkugildi eldsneytis sem þeir selja til notkunar
í samgöngum á landi á ári sé endurnýjanlegt. Allt endurnýjanlegt eldsneyti er
hægt að telja til, þ.m.t. rafmagn, metan, metanól, lífdísilolíu og etanól hvort
sem það er innlent eða erlent. Engin íblöndunarskylda er til staðar og hafa
olíufélögin því frjálsar hendur um framkvæmdina, svo lengi sem sjálfbærniviðmið
eru uppfyllt, en þau gera kröfu um a.m.k. 50% samdrátt í losun
gróðurhúsalofttegunda á orkugildi samanborið við jarðefnaeldsneyti.
Ennfremur var sett reglugerð um gæði eldsneytis,
nr. 960/2016, og byggði á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/30/EB, sem
kveður á um að olíufélög skuli ná 6% samdrætti í losun gróðurhúsaloftegunda á
hverja selda orkueiningu. Reglugerðin gerir töluvert ríkari kröfur til
olíufélaganna en í lögum um endurnýjanlegt eldsneyti þar sem hún tekur tillit
til losunar gróðurhúsloftegunda sem til verða við framleiðslu og notkun
endurnýjanlega eldsneytisins. Það eldsneyti sem hefur lítið kolefnisspor hefur
þess vegna meira vægi við útreikning á því hlutfalli ólíkt fyrrnefndu 5%
hlutfalli.
Árið 2019 taldi rafmagn um þriðjung þess
endurnýjanlega eldsneytis sem notað var í samgöngum á landi. Það er því ljóst
að Ísland er á góðri leið með að ná markmiðum sínum fyrir árið 2020 og að raf-
og tengiltvinnbílar eiga þar sívaxandi hlutdeild.
Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson
Höfundur er sérfræðingur hjá Orkustofnun
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2020