Fréttir


Orkustofnun samþykkir kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2018 - 2027

22.1.2019

Orkustofnun tók þann 18.1.2019 ákvörðun um að samþykkja kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2018-2027. Með breytingu á raforkulögum á árinu 2015 fékk Orkustofnun nýtt hlutverk sem felst í eftirliti með uppbyggingu flutningskerfisins í gegnum kerfisáætlun Landsnets.

Landsnet skal árlega leggja fram kerfisáætlun til samþykktar hjá Orkustofnun sem felur í sér tvo megin þætti:

• Langtímaáætlun sem sýnir þá hluta í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu tíu  árum. 

• Framkvæmdaáætlun sem sýnir áætlaðar fjárfestingar í flutningskerfinu sem Landnet hyggst ráðast í á næstu þremur árum. 

Samkvæmt raforkulögum hefur Orkustofnun það hlutverk að fara yfir og meta kerfisáætlun Landsnets með hliðsjón af markmiðum raforkulaga um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Mat Orkustofnunar á framkvæmdum á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar kemur í stað leyfisveitinga stofnunarinnar fyrir einstökum framkvæmdum. Þannig felur samþykki Orkustofnunar á kerfisáætlun í sér ígildi leyfis fyrir framkvæmdum á framkvæmdaáætlun flutningsfyrirtækisins.

Orkustofnun fékk kerfisáætlun 2018 – 2027 frá Landsneti til formlegrar meðferðar þann 31. ágúst 2018. Þann 22. nóvember 2018 gerði stofnunin athugasemdir við framlagða kerfisáætlun Landsnets og óskaði eftir breytingum á áætluninni.
Landsnet skilaði Orkustofnun endanlegri uppfærðri kerfisáætlun með breytingum þann 21. desember 2018.

Orkustofnun hefur nú yfirfarið þær breytingar sem Landsnet hefur gert á kerfisáætlun fyrirtækisins og er það mat stofnunarinnar að að áætlunin uppfylli skilyrði raforkulaga nr. 65/2003 og reglugerðar nr. 870/2016 um kerfisáætlun fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Það er því niðurstaða Orkustofnunar að samþykkja kerfisáætlun Landsnets 2018-2027. Ákvörðunin er kæranleg til úrskurðarnefndar raforkumála. 

Nánari upplýsingar veita:

Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri 

Rán Jónsdóttir, verkefnisstjóri


Sjá alla hluta kerfisáætlunar hér að neðan :

     Kerfisáætlun 2018-2027 - Langtímaáætlun

     Kerfisáætlun 2018-2027 - Framkvæmdaáætlun

     Kerfisáætlun 2018-2027 - Umhverfisskýrsla

     Kerfisáætlun 2018-2027 - Umhverfisskýrsla - viðaukar

     Fylgiskjal 1 - Athugasemdir hagsmunaaðila og viðbrögð Landsnets við þeim

     Fylgiskjal 2 - Athugasemdir viðskiptavina og viðbrögð Landsnets við þeim

     Mat Orkustofnunar á kerfisáætlun 2018-2027