Fréttir


Orkustofnun kallar eftir nýjum virkjunarhugmyndum vegna fjórða áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar (rammaáætlunar)

21.8.2019

Í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, sem að jafnaði er kölluð rammaáætlun, skulu beiðnir um að verkefnisstjórn fjalli um virkjunarkosti sendar til Orkustofnunar. 

Beiðni skal fylgja lýsing á fyrirhugaðri virkjun, áætluðum virkjunarstað, helstu mannvirkjum og öðrum framkvæmdum sem henni tengjast og eftir því sem kostur er áætlun um afl og orkugetu og stofn- og rekstrarkostnað virkjunar.

Orkustofnun fer yfir það hvort hugmyndirnar séu nægilega vel skilgreindar og sendir þær þá áfram til verkefnisstjórnar, séu upplýsingarnar fullnægjandi.

Að beiðni verkefnisstjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar kallar Orkustofnun nú eftir nýjum hugmyndum að virkjanakostum, sem skulu skilgreindir á sambærilegan hátt og gerð var krafa um vegna þriðja áfanga rammaáætlunar.

Þar sem afgreiðslu þriðja áfanga rammaáætlunar hefur ekki verið lokið á Alþingi hefur Orkustofnun ekki kallað eftir nýjum hugmyndum vegna fjórða áfanga rammaáætlunar til þessa.

Gera má ráð fyrir að verkefnisstjórn fjórða áfanga fjalli um alla virkjanakosti, sem eru nú eru í biðflokki.  Ef aðilar vilja að verkefnisstjórn fjalli um nýjar útfærslur á þeim virkjunarkostum sem eru í biðflokki í dag, geta þeir sent þær hugmyndir til Orkustofnunar.

Varðandi upplýsingar um það hvernig skilgreina skal virkjunarkosti er vísað til kynningar sem haldin var vegna þriðja áfanga rammaáætlunar sem finna má hér.

Einnig geta aðilar skoðað þau gögn sem send voru inn vegna þriðja áfanga hér .  

Þar sem ekki liggur fyrir hvenær afgreiðslu þriðja áfanga rammaáætlunar muni ljúka, né heldur hvenær verkefnisstjórn fjórða áfanga muni ljúka sinni vinnu, mun stofnunin ekki setja nein tímamörk á gagnaskil vegna hugmynda að nýjum virkjunarkostum.

Ef einhverjar spurningar vakna má hafa samband við stofnunina í s: 5696000 eða með tölvupósti á os@os.is