Orkustofnun kallar eftir hugmyndum um smávirkjanir í vatnsafli
Orkustofnun kallar eftir hugmyndum að virkjunum minni en 10 MW og má finna leiðbeiningar um það hvernig slíkum hugmyndum er skilað til stofnunarinnar í gegnum þjónustugátt á vefsíðu stofnunarinnar.
Í desember 2016, kynnti Orkustofnun fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hugmynd að smávirkjanaverkefni sem hefði það að markmiði að stuðla að aukinni raforkuframleiðslu á landsbyggðinni.
Hugmyndinni var vel tekið af stjórnvöldum og hefur verkefnið verið fjármagnað af nýrri ríkisstjórn. Fjölgun smávirkjana eykur framboð orku og getur dregið úr orkuskort víða um land og stuðlað að auknu orkuöryggi. Smávirkjanir geta einnig orðið lyftistöng fyrir bændur og aðra atvinnustarfsemi víða um land.
Stofnunin ákvað að gera tilraun árið 2017 til að kalla eftir hugmyndum að smærri virkjunarkostum í gegnum landshlutasamtök sveitarfélaga og bárust stofnuninni nokkrar hugmyndir. Fjórar þessara hugmynda voru útfærðar að nokkru til þess að sýna á hvern hátt Orkustofnun hyggst vinna með virkjunarhugmyndir í smávirkjanaverkefninu. Stöðuskýrsla um verkefnið fyrir árið 2017 er því dæmi um það sem hægt væri að gera víðar til að kortleggja möguleikana og ýta undir fjölgun smávirkjana. Smávirkjanir : Stöðuskýrsla fyrir árið 2017.
Rétt er þó að leggja áherslu á að Orkustofnun getur aðeins unnið almennt að undirbúningi smávirkjana á hugmynda- og forathugunarstigi. Hönnun og annar undirbúningur, bygging og rekstur virkjana er í höndum viðkomandi aðila á frjálsum markaði.
Nánari upplýsingar um verkefnið og hvernig á að senda inn hugmyndir má sjá hér :
Leiðbeiningar með gátt fyrir smávirkjanahugmyndir