Fréttir


Orkustofnun færir Landmælingum Íslands gamlar loftmyndafilmur

20.10.2020

Orkustofnun hefur um árabil lagt mikla áherslu á skráningu og varðveislu eldri gagna sem orðið hafa til í starfsemi stofnunarinnar. Jafnframt hefur verið reynt að koma slíku efni fullfrágengnu og afrituðu til framtíðarvarðveislu hjá lykilsöfnum landsins um leið og Orkustofnun hefur opnað aðgengi að þessum gögnum á vef og í kortasjám stofnunarinnar. Dæmi um slíkt er efni Kortasafns og Teikningasafns OS.

Orkustofnun hefur um langt skeið haft í vörslu sinni loftmyndafilmur sem sýna 23x23 cm loftmyndir af völdum svæðum á Íslandi annars vegar frá apríl og hins vegar ágúst 1968. Loftmyndirnar eru nálægt 550 úr tveimur myndatökuverkefnum bandarískra aðila hér á landi og er um að ræða afrit tekin eftir frumfilmum. Samkvæmt könnun var myndefni annars myndaflokksins ekki til í filmusafni Landmælinga Íslands, en einhver hluti af hinum flokknum var til á sams konar afrituðum filmum sem einnig voru sendar erlendis frá til Landmælinga eins og Orkustofnunar á sínum tíma.

Orkustofnun telur eðlilegt að loftmyndafilmur sem geyma eldri loftmyndir af Íslandi eins og þær sem hér um ræðir eigi að vera geymdar í góðum filmugeymslum og varðveittar með öðrum sams konar myndaflokkum af Íslandi frá fyrri tíð. Loftmyndasafn Landmælinga Íslands hefur haft hlutverki að gegna á þessu sviði um langan tíma hér á landi. Þegar loftmyndafilmurnar hafa verið skannaðar hjá stofnuninni er gert ráð fyrir að þær verði vistaðar í langtímavarðveislu hjá Þjóðskjalasafni Íslands.

Um afhendinguna á vefsíðu Landmælinga Íslands