Fréttir


Ný áætlun Uppbyggingarsjóðs EES um endurnýjanlega orku, umhverfis- og loftslagsmál í Póllandi kynnt 3. og 25. mars 2020

17.2.2020

Ný áætlun Uppbyggingarsjóðs EES um endurnýjanlega orku, umhverfis- og loftslagsmál verður kynnt á ráðstefnu í Varsjá í Póllandi 3. mars næstkomandi. Þetta er í fyrsta sinn sem slík áætlun á sviði endurnýjanlegrar orku er sett í framkvæmd í Póllandi, en unnið hefur verið að undirbúningi og skipulagi áætlunarinnar í nokkur ár á milli Uppbyggingarsjóðs EES, Póllands, Noregs og Íslands, sem Orkustofnun hefur annast fyrir hönd landsins.       

Ráðherra loftslagsmála Michał Kurtyka og ráðherra þróunarsjóðs og byggðamála, Małgorzata Jarosińska Jedynak frá Póllandi munu kynna verkefnið og flytja ávörp, ásamt Lilju Alfreðsdóttur ráðherra menntamála, vísinda og menningar frá Íslandi, auk sendiherra Noregs í Póllandi Olav Myklebust. Ráðuneyti loftslagsmála og Landssjóður fyrir umhverfisvernd og stjórnun vatnsbúskapar í Póllandi er umsjónaraðili áætlunarinnar þar sem áhersla er lögð á að vinna gegn hlýnun jarðar vegna loftslagsbreytinga ásamt aðlögun og verndun umhverfisins og vistkerfa, m.a. með sérstaka áherslu á aukna nýtingu endurnýjanlegrar orku.

Eitt af helstu markmiðum Uppbyggingarsjóðs EES á sviði endurnýjanlegrar orku, er að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum í viðkomandi löndum. Aðstoð Íslands við nýtingu endurnýjanlegrar orku, ekki síst hitun húsa með jarðvarma, getur haft mikil áhrif í þessum löndum, þar sem hús eru oft hituð upp með kolum, bæði einstök hús og einnig stór dreifikerfi. Afar mikil verkefni eru framundan í endurnýjun hitaveitna í Póllandi til að draga úr notkun kola sem er mikil og auka notkun endurnýjanlegrar orku, sem er líklega eitt af stærri verkefnum á sviði loftslagsmála í Póllandi. Með þessum verkefnum getur Ísland því aðstoðað við að draga verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis og þar með losun gróðurhúsalofttegunda sem gagnast öllum löndum óháð landamærum.

Verkefnið í Póllandi er jafnframt það allra stærsta á sviði endurnýjanlegrar orku og loftslagsmála sem Ísland tekur þátt í á alþjóðlegum vettvangi og nemur fjárhæð áætlunarinnar 140 milljónum evra, en auk þess leggur Pólland til 145 milljónir evra í formi lána og styrkja, og því nemur heildarfjárhæð verkefnanna um 285 milljónum evra eða tæpum 40 milljörðum íslenskra króna.     

Stuðningur samkvæmt áætluninni beinist að áherslum og verkefnum sem miða að því að bæta loftgæði, þróun hitaveitukerfa og raforkukerfi og bæta orkunýtni með endurnýjanlegri orku. Áhersla verður lögð á að auka framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjöfum, s.s. jarðvarma og orku frá litlum vatnsaflsvirkjunum og unnið að mótvægisaðgerðum vegna loftslagsbreytinga og verndun vistkerfa.

Áætlunin felur í sér stuðning á þremur megin sviðum:

  • Endurnýjanleg orka, orkunýting, orkuöryggi
  • Mótvægisaðgerðir og aðlögun vegna loftslagsbreytinga
  • Verkefni er varða umhverfi og vistkerfi
  • Einnig verður áhersla á tilraunaverkefni er varða hringhagkerfi og notkun lífmassa í orkumálum.

Jafnframt er veittur stuðningur við tvíhliða starfsemi, m.a. er varðar ferðastyrki á opnunarráðstefnu og samstarfsfundi 3. og 25. mars.

Í tengslum við opnun áætlunarinnar, fara fram þrenns konar viðburðir á næstunni.

Viðburðir 3. mars í Varsjá Póllandi – áðurnefnd ráðstefna og samstarfsfundur um loftslags- og umhverfismál sjá dagskrá hér

  • Opnunarráðstefna í Varsjá 3. mars frá kl. 8-12.

Samstarfsfundur (Match Making) aðila frá Póllandi og Noregi og Íslandi, vegna verkefna er varða umhverfis- og loftslagsmál innan áætlunarinnar, Varsjá 3. mars frá kl. 13.00-16:00

Samstarfsfundur um verkefni á sviði loftslags- og umhverfismála fer fram í Varsjá Póllandi 3. mars, og þurfa áhugasöm fyrirtæki og aðilar að skrá sig á vef verkefnisins í Póllandi en þar má einnig finna nánari upplýsingar um verkefnið.

Einnig verður annar samstarfsfundur um endurnýjanlega orku, jarðvarma og vatnsafl, 25. mars í Varsjá Póllandi .

  • Samstarfsfundur (Match Making) aðila frá Póllandi, í Noregi og Íslandi, vegna verkefna er varða endurnýjanlega orku, jarðvarma og vatnsafl, Varsjá 25. mars, dagskrá verður kynnt fljótlega.

Fyrirtæki sem hafa áhuga, geta átt möguleika á að undirbúa verkefni, sem bæði eru á sviði loftslags, og umhverfismála 3. mars. og svo hins vegar á sviði endurnýjanlegrar orku, jarðvarma, hitaveitna og vatnsafls 25. mars. Því getur verið gagnlegt fyrir fyrirtæki að sækja báða samstarfsfundina.

Á báðum þessum samstarfsfundum, (Match Making) verður lögð áhersla á að byggja upp tengsl milli fyrirtækja og aðila frá EES löndunum og í Póllandi sem hafa áhuga á að undirbúa verkefni og umsóknir fyrir komandi áætlun. 

Árangursrík ráðstefna um samstarf á sviði jarðhita milli Íslands, Póllands og Rúmeníu, innan Uppbyggingarsjóðs EES

23. október hélt Orkustofnun ráðstefnu um verkefni Uppbyggingarsjóðs EES er varða endurnýjanlega orku, hitaveitur, orkunýtingu, umhverfismál og loftslag í Póllandi og Rúmeníu. Ráðstefnan var skipulögð í samvinnu við utanríkisráðuneytið, umhverfisráðuneytið í Póllandi, Innovation Norway í Rúmeníu og Uppbyggingarsjóð EES.

Á þeirri ráðstefnu voru flutt fjölmörg erindi, frá bæjum, borgum, stofnunum, Viðskiptaráði hitaveitna í Póllandi og ráðuneyti loftslagsmála í Póllandi. Þar kom m.a. fram að að um 400 fyrirtæki hafi leyfi til hitaveitu, uppsett afl sé 55 GW og lengd dreifikerfisins væri um 21.000 km og að enn eru 72% hituð með kolum. Markmið á sviði hitaveitna væri að bæta loftgæði, draga úr áhrifum á loftslagsbreytingar og bæta orkuöryggi.

Afar mikil verkefni eru því framundan í endurnýjun hitaveitna til að draga úr notkun kola og auka nýtingu endurnýjanlegrar orku og bæta þar með loftgæði og vinna gegn hlýnun jarðar. Minni notkun kola og endurnýjun hitaveitna er líklega eitt af stærri verkefnum á sviði loftslagsmála í Póllandi, sem gagnast mun öllum löndum þar sem loftslagsmál hafa engin landamæri. Frekari upplýsingar frá ráðstefnunni, s.s. erindi frá aðilum í Póllandi  - má finna hér . Einnig má finna þar upplýsingar og skýrslur sem Orkustofnun hefur unnið að á umliðnum árum í samstarfi við aðila í Póllandi, ráðuneyti, borgir og bæi, sem geta gagnast við undirbúning á þeim miklu verkefnum sem framundan eru á þessu sviði í Póllandi. Viðbótarupplýsingar um verkefni á vegum Uppbyggingasjóðsins má einnig finna hér.

Nýtt tímabil Uppbyggingarsjóðs EES 2014–2021

Á umliðnum mánuðum hefur utanríkisráðuneytið og Orkustofnun unnið að undirbúningi fyrir nýtt tímabil Uppbyggingarsjóðs EES 2014–2021 er varðar endurnýjanlega orku, í samstarfi við aðila í Rúmeníu, Búlgaríu og Póllandi og samstarfsaðila í Noregi og Uppbyggingarsjóð EES í Brussel. Meginmarkmið er að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og auka orkuöryggi viðkomandi landa, með því að auka notkun endurnýjanlegrar orku, með sérstaka áherslu á jarðvarma og vatnsafl.

Eitt af markmiðum Uppbyggingarsjóðs EES er að efla samvinnu og skapa tengsl milli ríkja Evrópu sem um leið færir aðilum aukna þekkingu og kunnáttu til að vinna að samstarfsverkefnum á ýmsum sviðum, en ferðastyrkir á sviði endurnýjanlegrar orku auðvelda slíkt samstarf. Markmiðið er að koma á tengslum milli fyrirtækja og einstaklinga í þessum löndum fyrir komandi tímabil og undirbúa möguleg verkefni fyrir áætlunina.  

Fyrra tímabil Uppbyggingarsjóðs EES 2009 - 2014

Frá árinu 2010 hefur Orkustofnun, að beiðni utanríkisráðuneytisins, haft aðkomu að og tekið þátt í orkuverkefnum Uppbyggingarsjóðs EES í nokkrum löndum Austur- og Suður-Evrópu og er starfið kostað af sjóðnum, sem stofnaður var á grundvelli EES samningsins. Vinna Orkustofnunar hefur verið í formi aðstoðar við mótun, framkvæmd, útboð og eftirlit áætlana á sviði endurnýjanlegrar orku í viðkomandi löndum. Einnig hefur Orkustofnun séð um skipulagningu og umsjón á heimsóknum fyrirtækja og einstaklinga til þessara landa og einnig heimsóknir fulltrúa frá ráðuneytum, bæjum, borgum, stofnunum og fyrirtækjum frá viðkomandi löndum til Íslands, til að kynna sér uppbyggingu hitaveitna og nýtingu endurnýjanlegrar orku, sem gagnast m.a. afar vel í baráttu við loftslagsvandann.

Þau verkefni sem fyrirtæki hafa unnið að á umliðnum árum í áætlun fyrir 2009–2014, hafa aðallega verið í formi aðstoðar við uppbyggingu á hitaveitum, aðstoðar við útboð verkefna, eftirliti með framkvæmd, þekkingaruppbyggingar s.s. með námskeiðum og heimsóknum hópa frá Íslandi til þessara landa og hópa frá löndunum hingað til lands.

Einnig hefur Orkustofnun í samvinnu við erlenda og innlenda aðila, unnið að tvíhliða verkefnum í formi úttektar og stefnumótunar í sjö borgum og bæjum í Rúmeníu, Póllandi og Króatíu, sem nýtast vel við undirbúning stærri fjárfestingar- og útboðsverkefna fyrir aðila á markaði. Skýrslur um þetta má sjá á vefsíðu Orkustofnunar, undir heitinu Uppbyggingarsjóður EES.