Fréttir


Breytingar á lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar

14.6.2004

Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 78/2002 um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Samkvæmt lögunum þurfa allir notendur sem vilja njóta niðurgreiðslu að sækja um það sérstaklega til Orkustofnunar.

Lög um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar voru samþykkt á Alþingi 28. maí 2004.

Nokkrar viðbætur hafa verið gerðar við lögin en þær eru m.a. að þurfi umsækjandi að halda fleiri en eitt heimili vegna starfa, eigin náms eða náms fjölskyldu er heimilt að greiða niður húshitunarkostnað óháð því hvar lögheimili er skráð.

Einnig er heimilt að greiða niður hluta kostnaðar við hitun húsnæðis sem er skráð sem íbúðarhúsnæði hjá Fasteignamati ríkisins þótt þar sé ekki föst búseta. Heimildin nær til þess að greiða niður orkumagn sem svarar til fjórðungs af því orkumagni sem niðurgreitt er vegna þeirra íbúða sem njóta niðurgreiðslna á grundvelli 1. mgr.

Kostnaður við hitun kirkna og bænahúsa trúfélaga er niðurgreiddur samkvæmt lögunum frá 2002 en samkvæmt breytingunum er kostnaður safna, félagsheimila og húsnæðis björgunarsveita greiddur niður á sama hátt.

Þónokkrar breytingar verða á 12. gr. laganna sem snýr að fjárhæð styrkja en þar kemur m.a. fram að styrkur til hverrar hitaveitu getur numið allt að átta ára áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni eða olíu til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu miðað við meðalnotkun til húshitunar næstu fimm ár á undan.

Ný grein í lögunum heimilar ráðherra að ákveða að sérstakt jarðhitaleitarátak á köldum svæðum fái allt að 5% af árlegri fjárveitingu til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði.