Fréttir


Orkustofnun veitir Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. leyfi til leitar og rannsókna á kalkþörungaseti

10.8.2011

Orkustofnun veitti, þann 29. júní 2011, Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. leyfi til leitar og rannsókna á kalkþörungaseti á hafsbotni í Önundarfirði og Ísafjarðardjúpi að meðtöldum Jökulfjörðum.

Leyfið felur í sér heimild til að leita og rannsaka kalþörungaset á því svæði sem leyfið tekur til og er afmarkað með hnitum. Rannsóknir skulu gerðar samkvæmt þeirri rannsóknaráætlun sem var meðfylgjandi umsókn félagsins um rannsóknarleyfi.
Við undirbúning leyfisveitingarinnar var leitað umsagnar Umhverfisstofnunar, sem lögbundins umsagnaraðila, auk lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu, Siglingastofnunar, Hafrannsóknarstofnunarinnar, Náttúrustofu Vestfjarða, Fornleifaverndar ríkisins og Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. Þá var einnig leitað umsagna sveitarfélaganna Bolungarvíkurkaupstaðar, Vesturbyggðar, Strandabyggðar, Tálknafjarðarhrepps, Ísafjarðarbæjar svo og Súðavíkurhrepps.

Leyfið gildir frá 29. júní 2011 til 31. júlí 2014. Orkustofnun getur afturkallað leyfið ef leyfishafi fylgir ekki ákvæðum laga eða skilmálum leyfisins. Þá er Orkustofnun heimilt að taka leyfið til endurskoðunar ef verulegur eða alvarlegur forsendubrestur verður á útgáfu leyfisins.

Samhliða útgáfu leyfisins var Íslenska kalkþörungafélaginu veitt viðbót fyrir þegar veitt leyfi til handa félaginu, dags. 8. febrúar 2010. Í umræddri viðbót er leyfi til rannsókna á kalkþörungaseti á hafsbotni í Dýrafirði, Tálknafirði og Patreksfirði lengt um sem nemur frá 31. mars 2012 til 30. júní 2014. Þá er einnig heimilað, umfram þá rannsóknaráætlun sem lá fyrir þegar leyfið var veitt, að notast sé við neðansjávarmyndavél við rannsóknirnar.

Leyfið

Viðbót við leyfi, dags. 8. febrúar 2010