Fréttir


Skýrsla um 2. áfanga rammaáætlunar afhent ráðherrum.

8.7.2011

Svanfríður Jónasdóttir, formaður verkefnisstjórnar um rammaáætlun afhenti á miðvikudag þeim Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra og Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra skýrslu um 2. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Allt frá árinu 1999 hefur staðið yfir vinna við gerð rammaáætlunar um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Með rammaáætlun er mörkuð stefna hvaða virkjunarkostir komi til greina og hvaða svæði beri að friða og er markmiðið að ná framtíðarsýn í virkjana- og verndunarmálum og almennri sátt í þjóðfélaginu.

Í september 2007 skipaði iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra verkefnisstjórn til að ljúka 2. áfanga ramma­áætlunarinnar en samkvæmt erindisbréfi hennar á hún ,, ... að skapa faglegar forsendur fyrir ákvörðun um vernd og nýtingu náttúrusvæða”.

Verkefnisstjórnin hefur nú skilað iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra skýrslu um störf sín. Nú tekur við vinna við að útbúa drög að þingsályktunartillögu sem byggja á niðurstöðum skýrslunnar og munu þau fara í 12 vikna opið umsagnarferli.

Þegar búið verður að vega og meta þær umsagnir sem berast, munu umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra sameiginlega leggja fram þingsályktunartillögu fyrir Alþingi sem hefur síðasta orðið um það hvernig þeim virkjunarhugmyndum sem komu til mats verður raðað inn í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk.

Iðnaðarráðherra hefur ákveðið að útgáfu rannsóknarleyfa vegna fyrirhugaðra vatnsafls- og jarðvarmavirkjana sem verkefnisstjórn um rammaáætlun hefur fjallað um skuli frestað þangað til tillaga til þingsályktunar skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 48/2011 hefur verið afgreidd á Alþingi, eða í síðasta lagi til 1. febrúar 2012. Hefur ráðherra beint fyrirmælum þess efnis til Orkustofnunar.


SKÝRSLA RAMMAÁÆTLUNAR

KORT Í SKÝRSLU

VIÐAUKI UM JARÐHITA Á ÍSLANDI