Fréttir


Nefnd um ákvörðun á eðlilegri arðsemi fyrirtækja (WACC) sem flytja og dreifa raforku

6.7.2011

Orkumálastjóri skipar þriggja manna sérfræðinefnd til að leggja mat á hver eðlileg arðsemi flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna sé út frá ákveðnum viðmiðum sem tilgreind eru í raforkulögum.

frett_06072011


Með lögum nr. 19/2011 voru gerðar breytingar á raforkulögum nr. 65/2003. Ákvæði  í raforkulögum varðandi tekjumörk flutningsfyrirtækisins (Landsnet) og tekjumörk dreifiveitna, eru nú mun ítarlegri.

Í lögunum er kveðið á um að sérfróðir, óháðir aðilar skuli fengnir til þess að leggja mat á hver eðlileg arðsemi flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna sé út frá ákveðnum viðmiðum sem tilgreind eru í lagatextanum. Lögin kveða einnig á um að hinir sérfróðu óháðu aðilar skuli hafa samráð við helstu hagsmunaaðila þegar matið er unnið.Nýskipuð sérfræðinganefnd um ákvörðun á eðlilegri arðsemi fyrirtækja (WACC)
sem flytja og dreifa raforku. Frá vinstri er orkumálastjóri Guðni A. Jóhannesson
ásamt nefndarmönnum, Margit Robertet formanni, Daða Má Kristóferssyni og
Jóni Þorvaldi Heiðarsyni


Orkumálastjóri hefur eftir m.a. tilnefningu frá háskólastofnunum skipað þriggja manna sérfræðinganefnd til þessa verks. Í nefndinni eiga sæti:

Margit Robertet framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Auðar Capital, formaður. Margit hefur yfir 20 ára reynslu af fyrirtækjaráðgjöf mest megnis erlendis frá þar sem hún starfaði fyrst í London hjá Barclays frá 1993 og síðar í París hjá Credit Suisse fram til 2005, framkvæmdastjóri lánasviðs Straums Burðaráss Fjárfestingarbanka frá 2005 til 2007. Margit er viðskiptafræðingur með MBA gráðu frá Rotterdam School of Management. Margit hefur leyfi sem löggiltur verðbréfamiðlari bæði frá FSA í Englandi og FME á Íslandi.

Daði Már Kristófersson dósent við Háskóla Íslands. Daði hefur doktorsgráðu í hagfræði frá UMB í Noregi. Sérfræðigrein hans er auðlindahagfræði. Nýlegar fræðigreinar sem hann hefur skrifað fjalla m.a. um stjórnun fiskveiða, stefnu í landbúnaði og skattlagningu á orku.

Jóh Þorvaldur Heiðarsson lektor við viðskipta- og raunvísindadeild HA. Jón lauk meistaraprófi í hagfræði frá Háskóla Íslands 2004 og hefur starfað sem sérfræðingur við rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri frá sama ári. Hann hefur sinnt rannsóknum tengdum vatnsafli og orkumálum, samgöngum og vegamálum, skipulags- og byggingamálum og stjórn efnahagsmála.