Vatnavextir í Múlakvísl og gasútstreymi við Sólheimajökul
Þegar ljóst var að ekki var um minniháttar frávik í rafleiðni að ræða lét sérfræðingur Vatnamælinga Orkustofnunar boð ganga til Almannavarna og annarra samstarfsaðila í vöktun með Mýrdalsjökli. Sunnudaginn 18. apríl náði rafleiðni árvatnsins hámarki, 360 míkróSiemens/cm sem er mesta rafleiðni sem mælst hefur í ánni frá því reglulegar mælingar hófust í júlí 1999. Þá um kvöldið var farið að ánni og tekið sýnishorn til aurburðar- og efnagreininga en auk þess framkvæmdi vaktmaður á staðnum reglulegar rafleiðnimælingar með handmæli.
Talið er fullvíst að um hafi verið að ræða leka jarðhitaættaðs vatns, sem safnast hafi fyrir undir jöklinum. Atburðurinn þykir líkjast hlaupi, sem varð í Jökulsá á Sólheimasandi í júlí 1999 en er þó allur minni í sniðum.
Um svipað leiti og vatnavextir voru í Múlakvísl var vísindamaður á vegum Háskóla Íslands að störfum við Sólheimajökul og Kötlujökul. Eins og fram hefur komið í fréttum telur hann sig hafa orðið fyrir snert af brennisteinsvetniseitrun og taldi hann mengunina hafa verið hvað mesta við Sólheimajökul. Megn brennisteinsfnykur hefur verið við Jökulsá á Sólheimasandi endrum og eins, a.m.k. á þeim tæplega 5 árum sem sjálfvirk vöktunarstöð Vatnamælinga Orkustofnunar hefur verið í rekstri við ána og þekkt eru frá gamalli tíð nöfn á ánni eins og “Fúlilækur”. Styrkur brennisteinsvetnis hefur ekki nauðsynlega endurspeglast í síritaðri rafleiðni vatnsins þar sem mælistöðin er við brúna á þjóðvegi nr. 1 og því nokkur tími til uppgufunar úr ánni á leiðinni frá jökli að brú. Brennisteinsvetni gufar auðveldlega upp úr vatninu eftir að það kemur undan jöklinum þar sem efnið er rokgjarnt (lofttegund) við andrúmsloftshita og -þrýsting og styrkur þess í umhverfinu er hverfandi lítill fyrir. Hugsanlega er ástæða til að settir verði upp sérstakir skynjarar til mælinga á brennisteinsvetni í andrúmslofti í nágrenni við Mýrdalsjökul.
Brennisteinsvetni er mjög eitruð lofttegund og kannski lúmskt hættuleg fyrir þá sök að hún er þyngri en andrúmsloftið við venjulegan útihita og situr því í lægðum í lygnu veðri. Auk þess dofnar lyktarskynið mjög hratt við lítinn styrk brennisteinsvetnis. Því er rétt að hafa allan vara á sér gagnvart brennisteinsvetnismengun, sérstaklega á stöðum eins og við rætur Sólheimajökuls þar sem umhverfið þrengir mjög að frá flestum hliðum. Þumalfingursreglan er því sú, að forða sér af svæðum sem þessum um leið og lyktin finnst.
Nefndir atburðir í Múlakvísl og við Sólheimajökul í apríl 2004 eru einir og sér ekki sönnun þess að skyndileg aukning hafi orðið í jarðhitavirkni undir Mýrdalsjökli heldur ber að skoða þá í samhengi við aðra vöktun með Mýrdalsjökli. Mælingar sýna, að samtímis litlum flóðum í jökulár frá Mýrdalsjökli og mengun andrúmsloftsins þeim samfara er jarðskjálftavirkni að aukast, askjan að þenjast út og yfirborð jökulsins yfir öskjunni að aflagast á vissum svæðum. Allt eru þetta taldar nokkuð áreiðanlegar vísbendingar um almennt aukna jarðhitavirkni á svæðinu, að eldstöðin Katla sé að búa sig undir gos.
Vel er fylgst með Kötlu og jökulám frá Mýrdals- og Eyjafjallajökli. Vöktunin er samstarfsverkefni eftirtalinna aðila: Jarðvísindastofnunar Háskólans, Veðurstofunnar og Vatnamælinga Orkustofnunar.