Fréttir


Jarðhitinn: Auðlind og náttúrugersemi

26.3.2004

Meðal merkustu tækniframfara hér á landi á liðinni öld eru þau vaxandi tök sem náðst hafa á nýtingu jarðhitans sem leynst hefur djúpt í berglögum undir landinu án þess að menn grunaði hvílíkur auður væri þar fólginn. Á seinni helmingi tuttugustu aldar varð bylting í rannsóknum og nýtingu jarðvarma hér á landi og á hún verulegan þátt í þeim góðu lífskjörum sem þjóðin býr nú við.

Í bókinni er fjallað um jarðhitann sem náttúrufyrirbæri og rannsóknir vegna nýtingar hans, um boranir eftir jarðhita, vinnslu hans og margvísleg not. Rætt er um umhverfisáhrif nýtingar og vernd jarðhitafyrirbæra. Þá er sérstakur kafli um brautryðjendur í jarðhitarannóknum á Íslandi frá dögum Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar og fram á miðja tuttugustu öld. Loks er í bókinni annáll atburða er tengjast jarðhitanum, rannsóknum hans og nýtingu allt frá upphafi Íslandsbyggðar. Í bókinni, sem er um 284 bls. eru einar 215 myndir, kort og línurit sem varpa skýru ljósi á viðfangsefnið.

Höfundur bókarinnar, Guðmundur Pálmason, var um áratuga skeið leiðandi í jarðhitarannsóknum á Íslandi, lengst af sem forstöðumaður Jarðhitadeildar Orkustofnunar. Hann var að auki mikilvirkur jarðvísindamaður og brautryðjandi í jarðvísindum hérlendis. Hann lést 11. mars sl. um það leyti sem unnið var að lokafrágangi verksins.

Bókin er menningarsögulegt fræðslurit fyrir lesendur sem vilja afla sér þekkingar um náttúrufræðileg og tæknileg efni. Höfundur deildir með lesendum reynslu sinni og sýn á framvindu íslenskra jarðhitafræða.

Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag í samstarfi við Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir.

Í tilefni af ársfundum Orkustofnunar og Íslenskra orkurannsókna er bókin nú á tilboðsverði á kr. 4.000,- í stað kr. 4.990,- Panta má bókina með því að fylla út form á síðu Íslenskra orkurannsókna eða í síma 588-9060.