Fréttir


Hægir á aukningu jarðvarmanotkunar en eykst þó um 50% til ársins 2030

22.3.2004

Undanfarna áratugi hefur notkun jarðvarma aukist mikið hér á landi og er nú 87% húsa hituð með jarðvarma. Hlutur jarðvarma í húshitun heldur áfram að vaxa en mun hægar en áður. Samhliða fjölgun fólks og uppbyggingu atvinnulífs eykst notkunin og er spáð að hún aukist um 50% á þremur fyrstu áratugum aldarinnar eða um 1,4% á ári að jafnaði. Gert er ráð fyrir að notkun jarðvarma aukist til húshitunar, snjóbræðslu, í sundlaugum, iðnaði og  fiskeldi en dragist saman í ylrækt.

Þetta kemur fram í nýrri jarðvarmaspá frá orkuspárnefnd, sem er samstarfsvettvangur helstu fyrirtækja, stofnana og samtaka í orkugeiranum auk Hagstofu Íslands og Fasteignamats ríkisins. Spáin nær til beinnar nýtingar jarðvarma en tekur ekki til raforkuvinnslu með jarðvarma enda er fjallað um hana í raforkuspá nefndarinnar óháð orkugjafa. Unnt er að nálgast spána á heimasíðu orkuspárnefndar, orkuspa.is.

Til grundvallar spánni eru lagðar forsendur um þróun mannfjölda, húsnæðis, sundlauga, neyslu grænmetis, fiskeldis, snjóbræðslu auk annarra þátta þar sem jarðvarmi er notaður. Um 3/4 af notkun jarðvarma til annarra hluta en raforkuvinnslu er vegna húshitunar og ef snjóbræðsla er tekin með verður hlutur þeirra þátta um 80%, sjá mynd hér að neðan.

frett_22032004_1

Skipting jarðvarmanotkunar án raforkuvinnslu eftir þáttum árið 2001, nýtt orka.

Húshitun

  • Gert er ráð fyrir að jarðvarmanotkun til húshitunar vaxi að meðaltali um 1,2% á ári næstu 30 árin. Um 87% húsa á Íslandi eru hituð upp með jarðvarma og reiknað er með að það hlutfall verði komið í 92% árið 2030.  Íbúum hefur fjölgað mest á þeim svæðum landsins þar sem hús eru hituð með jarðvarma en fækkað á rafhitunarsvæðum.
  • Gert er ráð fyrir að á spátímanum haldi hlutdeild jarðvarma áfram að aukast í hitun húsa. Aukningin var mest í þessum þætti á áttunda áratug síðustu aldar en síðan hefur hægt á henni enda hlutdeild jarðvarma nú orðin mikil (sjá mynd 2.3 í skýrslunni). Gert er ráð fyrir nýrri hitaveitu á Eskifirði og að tveir aðrir þéttbýlisstaðir fái hitaveitu í stað rafhitunar.

Sundlaugar

  • Miðað er við að sundlaugum fjölgi og að notkun á orkufrekum búnaði á borð við vatnsrennibrautir, eimböð og nuddpotta aukist. Þetta kallar á aukna orkunotkun en talið er að notkun jarðvarma í sundlaugum muni aukast að meðaltali um 1% á ári á spátímabilinu.

Snjóbræðsla

  • Á undanförnum áratugum hefur útbreiðsla snjóbræðslukerfa aukist mikið, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að vinsældir snjóbræðslu haldi áfram og að hún verði notuð við flest ný hús auk þess sem notkun hennar aukist við eldri hús og hjá opinberum aðilum. Spáð er því meiri vexti í snjóbræðslu en í hitun húsa eða að meðaltali um 2,7% á ári á fyrstu þremur áratugum aldarinnar.

Ylrækt

  • Búist er við að jarðvarmanotkun í ylrækt þróist á nokkuð annan veg en í öðrum flokkum vegna breyttra aðstæðna í þessari grein sökum harðnandi samkeppni við innflutning. Því er spáð að jarðvarmanotkun í ylrækt muni dragast saman um 1,4% á ári að jafnaði til 2030. Gert er ráð fyrir að framleiðni í ylrækt aukist með raflýsingu, breyttum framleiðsluaðferðum og betri nýtingu gróðurhúsa. Framleiðslan muni því aukast á hvern fermeter gróðurhúsa en heildarflatarmál þeirra dragast saman og jarðvarmanotkun minnka.

Fiskeldi

  • Jarðvarmi er hlutfallslega langmest notaður í bleikjueldi, sem stóð undir 65% af heildarnotkuninni í fiskeldi árið 2001.
  • Því er spáð að jarðvarmanotkun aukist í bleikjueldi en mest aukning verði samt í seiðaeldi (bleikja og lax). Þá er gert ráð fyrir að eldi þorskseiða verði orðið umtalsverð í lok spátímabilsins og þar verði notaður jarðvarmi. Jarðvarmanotkun vex því verulega í þessari grein eða um 3% á ári að meðaltali næstu 30 árin.

Iðnaður

  • Kísiliðjan er stærsti notandi jarðgufu hér á landi. Önnur helsta notkun jarðvarma í iðnaði er í Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum og við að þurrka fisk, aðallega þorskhausa fyrir Nígeríumarkað.
  • Á spátímabilinu er talið að notkunin muni aðallega aukast vegna breytts reksturs Kísiliðjunnar í Mývatnssveit með tilkomu nýrrar verksmiðju til þurrkunar á kísildufti. Ekki hefur þó verið tekin endanleg ákvörðun um þessa nýju verksmiðju.

Hafa ber í huga að veruleg óvissa er í þróun notkunar í þeim greinum þar sem spáð er mestri aukningu. Þetta á bæði við um fiskeldi og snjóbræðslu. Einnig er nokkur óvissa um þróun ylræktar.

Orkuspárnefnd og starf hennar


Orkuspárnefnd hefur starfað í rúman aldarfjórðung og gefið út 18 spár um orkugjafa: eldsneytisnotkun, raforku, húshitun og jarðvarma. Nýja jarðvarmaspáin er sú þriðja í röðinni, síðasta jarðvarmaspá var gefin út 1987. Hún stóðst vel hvað varðar húshitun en frávik var meira í snjóbræðslu, fiskeldi og iðnaði, enda meiri óvissa um gang mála í til dæmis iðnaði og fiskeldi á áratuga tímabili en hitun húsa, eðli máls samkvæmt. Myndin hér að neðan sýnir þróun notkunar samkvæmt jarðvarmaspám nefndarinnar.

Skýrslur orkuspárnefndar eru gefnar út í nafni Orkustofnunar. Verkfræðistofan Afl ehf. vinnur að gerð orkuspánna í umboði Orkustofnunar og orkuspárnefndar.


frett_22032004_2
Samanburður á spám um jarðvarmanotkun, nýttur varmi.

Jarðvarmaspána má lesa í heild sinni á pdf sniði og eins er hægt að nálgast eintak á kr. 1800 á bókasafni Orkustofnunar.