Fréttir


Undirbúningur að greinargerð um tilkall Íslendinga til hafsbotns umhverfis landið

10.3.2004

Þann 8. mars skilaði Hafrannsóknastofnun niðurstöðum fjölgeisladýptarmælinga sem gerðar voru fyrir Orkustofnun árið 2003 vegna undirbúnings að greinargerð um tilkall Íslendinga til hafsbotns umhverfis landið.

Mælingarnar fóru fram á hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni í Síldarsmugunni, á Reykjaneshrygg, úti fyrir Suðurlandi, á Færeyjahrygg og á Hatton-Rockall svæðinu. Úthaldsdagar voru 84 og mælingar gerðar á línum sem eru samtals 15.400 km að lengd.

Gæði dýptarmæligagna Hafrannsóknastofnunar voru í góðu lagi og standast vel kröfur Landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Sama má einnig segja um úrvinnsluna. Í ljósi þess árangurs sem stofnunin hefur náð í afköstum og gæðum er fyrirhugað að semja við hana um að taka einnig að sér síðasta áfanga mælinganna sem fram á að fara í ár. Mælingasvæðin eru Reykjaneshryggur og landgrunnshlíðarnar suður af landinu.