Fréttir


Málþing um fyrirkomulag eftirlits með flutningi og dreifingu raforku á Norðurlöndum

2.3.2004

Samtök norrænna eftirlitsstofnana með verðlagningu í sérleyfisþáttum raforkugeiranum (FNER) hélt vinnufund hér á landi um nýliðna helgi. Orkustofnun fer með þetta hlutverk hérlendis og er aðili að þessum samtökum.
frett_02032004

Vegna fyrirhugaðra breytinga á fyrirkomulagi raforkumála og sérstaklega tillagna svokallaðar 19mannanefndar um flutningskafla raforkulaga var tækifærið notað og haldið málþing með hinum norrænu fulltrúum þar sem farið var yfir fyrirkomulag eftirlits með flutningi og dreifingu raforku, sérstaklega m.t.t. tekjumarka og gjaldskráa. Til málþingsins voru boðaðir fulltrúar orkufyrirtækja og stjórnvalda, svo og fulltrúum í 19mannnefnd, þar með talið fulltrúum þingflokkanna.

Fram kom á málþinginu að ráðgert fyrirkomulag raforkumála hérlendis og eftirlitsins sérstaklega svipar mjög til þess sem er á öðrum Norðurlöndum, enda höfðu fyrirmyndir verið sóttar þangað, einkum þó til Noregs, enda búa þeir yfir mestri reynslu á þessu sviði þar sem fyrirkomulaginu var breytt þar fyrir nær hálfum öðrum áratug. Meginaðferðir við eftirlit byggjast annars vegar á því að flutnings- og dreififyrirtækjum eru settar rammar um leyfilegar tekjur og þau setja síðan gjaldskrár í samræmi við það. Þetta er það sem gert er í Noregi, Danmörku og á Íslandi. Hins vegar er sums staðar frekar horft til þess að taka við kærum frá neytendum ef þeim þykir verðlagning vera úr hófi fram og tekur þá eftirlitsaðilinn á málinu. Þannig hefur fyrirkomulagið verið í Svíþjóð og Finnlandi í samræmi við almennar stjórnsýsluhefðir þar. Evrópusambandið kallar nú eftir breytingum þar sem færa á fyrirkomulagið mjög að því sem tíðkast hefur á hinum vestari Norðurlöndum. Eftir breytingarnar verður því fyrirkomulag eftirlits með flutningi og dreifingu raforku á Norðurlöndum líkara innbyrðis en verið hefur. Það fyrirkomulag, sem fyrirhugað er hér á landi, verður því í góðu samræmi við það sem mun tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

Þá var fjallað um ýmis sérhæfð atriði svo sem skilgreiningu á mati eigna í þessum sérleyfisfyrirtækjum, mati á arði og leyfilegum hagnaði. Ennfremur um verðlagningu til stórnotenda sérstaklega, jöfnun í flutningi og dreifingu o.fl.

Rætt var á málþinginu um það hvort breytingarnar á fyrirkomulagi raforkumála hafi verið til góðs eða ekki. Almennt var talið að orkuverð hafi lækkað auk þess sem gagnsæi í rekstrinum og verðlagningunni hafi verið til mikilla bóta. Atvinnulífið hafi náð lægra raforkuverði með því að nýta sér samkeppnina, en heimilin síður, enda er samkeppnishlutinn, þ.e. orkan sjálf lítill hluti raforkuverðs heimilanna og því ekki eftir miklu að slægjast þó skipt sé um orkuseljanda. Jafnframt er víðast hvar (nema í Noregi) stutt síðan almenningur hefur átt kost á að nýta sér markaðsfrelsið.