Fréttir


Hækkar raforkuverð um 20% eða meira?

1.3.2004

Að beiðni iðnaðarráðherra hefur Orkustofnun metið hugsanlegar afleiðingar nýrra raforkulaga og tillagna nítjánmannanefndar á raforkuverð í landinu. Stofnunin telur að ekki sé tilefni til almennra hækkana á raforkuverði af þessum sökum. Þvert á móti er markmið skipulagsbreytinga af þessu tagi, sem gerðar hafa verið í ríkjum EES og víðar um heim, það að stuðla að samkeppni í þeim þáttum raforkugeirans þar sem það á við.

Að beiðni iðnaðarráðherra hefur Orkustofnun metið hugsanlegar afleiðingar nýrra raforkulaga og tillagna nítjánmannanefndar á raforkuverð í landinu. Stofnunin telur að ekki sé tilefni til almennra hækkana á raforkuverði af þessum sökum. Þvert á móti er markmið skipulagsbreytinga af þessu tagi, sem gerðar hafa verið í ríkjum EES og víðar um heim, það að stuðla að samkeppni í þeim þáttum raforkugeirans þar sem það á við.

Hér er þó aðeins til umræðu sá hlutinn sem lýtur að flutningi rafmagns frá virkjunum eftir háspennulínum að veitusvæðum og síðan dreifingu þess innan þeirra. Þessi starfsemi verður bundin sérleyfum og mun Orkustofnun hafa eftirlit með verðlagningu þjónustunnar.

Enda þótt ekki sé tilefni til almennra hækkana leiða tillögurnar (ef að lögum verða) til nokkurrar tilfærslu byrða milli veitusvæða.  Þannig getur kostnaðarhækkun við flutning og dreifingu rafmagns leitt til hækkunar rafmagnsverðs hjá meðalfjölskyldu á svæði Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um því sem næst 1% og hjá Hitaveitu Suðurnesja (HS) um 2½%. Hjá Norðurorku gæti hækkunin orðið 1½% en lækkun verður hjá Rarik um 2½%. Hjá Orkubúi Vestfjarða (OV) má ætla að tilkostnaður aukist um 1½%, en á hitt er að líta að nítjánmannanefndin leggur ennfremur til að kostnaður við dreifingu verði niðurgreiddur í dreifbýli. Að teknu tilliti til þess lækkar meðalrafmagnskostnaður á svæði OV um 2½% frá núverandi ástandi og hjá Rarik um 5%.

Komið hefur fram hjá forstjórum orkuveitna suðvestanlands að kostnaður við flutning og dreifingu geti hækkað raforkuverð um 20% eða meira. Meginskýringin á þessum mikla skoðanamun eru mismunandi forsendur um fjármagnskostnað og arð. Í útreikningunum Orkustofnunar er miðað við að 3% arðsemi af bundnu fjármagni bæði í flutningi og dreifingu, jafnt fyrir sem eftir kerfisbreytinguna.

Hingað til hafa hinir mismunandi þættir í rekstri orkufyrirtækjanna ekki verið gerðir upp sérstaklega. Með nýju raforkulögunum er krafist bókhaldslegs aðskilnaðar á þessum þáttum. Sum fyrirtækjanna sem annast dreifingu telja að lítil arðsemi sé af þeirri starfsemi eða jafnvel tap nú. Dreifingin er þá beint eða óbeint niðurgreidd af öðrum þáttum í rekstri fyrirtækjanna.

Í nýju fyrirkomulagi (samkvæmt lögunum og tillögum nítjánmannanefndar) ber Orkustofnun að skammta dreifi- og flutningsþáttunum í raforkugeiranum tekjur með svokölluðum tekjumörkum. Í þeim efnum ber stofnuninni að hafa að leiðarljósi að þessi starfsemi sé ekki rekin með halla og að arðsemi bundins fjármagns (hvort sem það er eigið fé eða lánsfé) geti að lokinni aðlögun orðið hliðstæð því sem er á ríkisskuldabréfum. Þannig hefur verið gengið út frá því í tillögunum að þessi arðsheimild í tekjumörkum miðist í fyrstu við u.þ.b. 3% arðsemi fjármagns en þokist upp í 6%. En þess er jafnframt vænst að þessi aukna arðsemi náist með hagræðingu og leiði því ekki til verðhækkana.

Jafnframt verður að benda á að fyrirtækjunum er engan veginn skylt að nýta sér tekjuheimildirnar til fulls, þar með talið þessa arðsheimild. Hafi fyrirtækin eða eigendur þeirra talið það rétt að færa fé frá annarri starfsemi til dreifingar og flutnings er það í sjálfu sér heimilt áfram, svo lengi sem það er ekki tekið af einhverri annarri sérleyfisstarfssemi. Af þessum sökum telur Orkustofnun ekki eðlilegt að miða samanburð á núverandi og nýju fyrirkomulagi við taprekstur nú og arðbæran rekstur í framtíðinni heldur beri að miða við sömu arðsemiskröfu fyrir og eftir breytinguna. Þannig komi beinar afleiðingar breytinganna skýrt í ljós, svo sem af aukinni jöfnun í flutningi og dreifingu.

Ef miðað er við 0% arðsemi nú hjá dreifiveitunum (sem í raun merkir tap, þar sem arðsemin á m.a. að standa undir vöxtum af skuldum) en að arðsemin verði skyndilega hækkuð í 6% (án hagræðingar á móti) er vissulega hægt að fá út tilefni til um 10% hækkunar á raforkuverði til almennings. Ef sama stökk yrði í arðsemiskröfu af flutningi eftir háspennulínunum geta önnur 10% bæst við. Viðbótarhækkunin til að standa undir slíkri aukinni arðsemi yrði svipuð um allt land, en ekkert meiri á Suðvesturlandi.

En ítrekað skal að Orkustofnun telur samanburð á þeim forsendum að það eigi að verða skyndibreyting á arðseminni ekki réttan.