Fréttir


Vetrarflóð í kjölfar hlýinda

20.2.2004

Nokkur flóð hafa orðið í vatnsföllum á vestanverðu landinu og í hálendisám, og náðu þau yfirleitt hámarki í gær, fimmtudaginn 19. febrúar, eða í nótt.

Í Hvítá í Árnessýslu kom flóðtoppur er áin ruddi sig í gær, en Ölfusá var enn að vaxa í morgun og mældist þá rúmlega 1300 m³/s, sem er rúmlega þrefalt meðalrennsli í febrúar.

Mikill vöxtur varð í Skjálfandafljóti í gærkvöldi og nótt, en innst í Bárðardal var um 9 stiga hiti, hvassviðri og rigning. Fljótið var lagt fyrir og flæddi það upp á bakka og tók í sundur vegi. Sjálfvirkt viðvörunarkerfi Vatnamælinga gerði það mögulegt að gera lögreglu viðvart um yfirvofandi flóð niður með Skjálfandafljóti, þannig að hægt var að loka vegum tímanlega og tryggja öryggi.

Í Norðurá í Borgarfirði kom um 270 m³/s flóðtoppur í gærkvöldi, sem er fimmtánfalt meðalrennsli í febrúar, en dæmi er til um 500 m³/s flóðtopp í ánni í þessum mánuði í aftaka vatnavöxtum.

Fjórir hópar vatnamælingamanna hafa verið að störfum í gær og í dag við flóðamælingar á Vesturlandi og Suðurlandi til að afla nánari vitneskju um þessa atburði.