Fréttir


Málþing um 1. áfanga rammaáætlunar

29.1.2004

Markmiðið með málþinginu er að fá fram sjónarmið og ábendingar um niðurstöður 1. áfanga rammaáætlunar, vinnubrögð og aðferðir og notagildi. Þá er tilgangurinn einnig að líta til þess sem helst bera að hafa hliðsjón af við skipulag 2. áfanga rammaáætlunar.

Dagskrá ráðstefnunnar er tvískipt. Fyrri hlutinn fjallar um þær aðferðir sem beitt var en Sveinbjörn Björnsson formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar mun greina frá aðferðunum og þrír sérfræðingar munu rýna í þær og reyna að svara
því hvort þær byggi á  traustum grunni.  Þetta eru Stefán Gíslason, umhverfisfræðingur, Jakob Björnsson f.v. orkumálastjóri og Þórólfur Matthíasson hagfræðingur og formaður stjórnar Umhverfisstofnunar Háskóla Íslands.

Á síðari hluta málþingsins verður athyglinni beint að notagildi rammaáætlunar og jafnframt verður fjallað um frekari vinnu við næstu áfanga verkefnisins. Fulltrúar Samorku, Félags ráðgjafaverkfræðinga, umhverfisverndarsamtaka, Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar munu leitast við að svara því hvort  niðurstöður 1. áfanga séu trúverðugar, hvaða not megi helst hafa af 1. áfanga rammaáætlunar og greina frá því hvernig þeir telja heppilegt að halda áfram vinnu á þessu sviði.

Það eru iðnaðar- og umhverfisráðuneytið sem boða til þessa málþings. Málþingið er öllum opið og aðgangur er ókeypis. Landvernd sem annast hefur samráð í tengslum við vinnu að rammaáætlun, var falið að annast skipulag málþingsins.