Fréttir


Vettvangur um vistvænt eldsneyti

20.1.2004

Á fundi ríkisstjórnar þann 13. janúar sl. var samþykkt tillaga iðnaðarráðherra um að komið yrði á fót vettvangi um vistvænt eldsneyti sem hefði aðsetur á Orkustofnun.

Ágúst Valfells hefur verið ráðinn til að sinna verkefninu sem í upphafi er hugsað til þriggja ára. Ágúst er verkfræðingur að mennt.

Áform um tilraunir og notkun vetnis hér á landi hafa á síðustu árum vakið mikla eftirtekt erlendis. Nú eru þessi áform að taka á sig áþreifanlega mynd þegar fyrstu vetnisknúnu strætisvagnarnir hafa verið í notkun hér á landi um þriggja mánaða skeið. Fyrirtækið Íslensk NýOrka ehf. hefur hingað til haft veg og vanda af undirbúningi og þróun þessa verkefnis og annast mikla kynningu á því erlendis sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Öðrum þræði hefur fyrirtækið einnig túlkað stefnu íslenskra stjórnvalda varðandi áhuga þeirra á aukinni nýtingu vistvænna orkugjafa í samgöngum hér á landi í framtíðinni.

Að mati iðnaðarráðherra er orðið fyllilega tímabært að  stjórnvöld afli sér frekari þekkingar um þennan mikilvæga málaflokk til að móta stefnu  um hvað eina er miðar að því að nýta innlendar orkulindir í samgöngum og sjávarútvegi í framtíðinni. Slík yfirsýn á þannig ekki að einskorðast aðeins við notkun vetnis sem orkubera í þessu skyni, heldur ber einnig að kanna notkun annara orkubera (t.d. metan og metanól), notkun blandaðra véla (hybrid) eða rafbíla með hliðsjón af því að reyna að finna vænsta kostinn þegar tekið er tillit til hagkvæmni og umhverfisþátta.  Skref var stigið í þessa átt  árið 2002 með því að komið var á laggirnar sérstakri samráðsnefnd ráðuneyta um þetta viðfangsefni. Nú hefur næsta skref verið stigið með því að koma á fót sérstakri skrifstofu til að halda utan um málaflokkinn.

Á fundi ríkisstjórnarinnar 31.10.2003 var lögð fram til kynningar tillaga iðnaðarráðherra um að Orkustofnun yrði falið að koma á fót slíkri skrifstofu og hefur hún fengið vinnuheitið „Vettvangur um vistvænt eldsneyti“. Verkefni þetta er í fyrstu hugsað sem þriggja ára tilraunaverkefni. Meginhlutverk skrifstofunnar er að afla stjórnvöldum þekkingar og aðstoða við stefnumótun þannig að stjórnvöld geti sjálf haft æskilega forystu mála. Þá er lagt til að skrifstofunni til halds og trausts verði skipuð verkefnisstjórn með fulltrúum frá ráðuneytum iðnaðar-, umhverfis-, sjávarútvegs-, samgöngu-, utanríkis- og fjármála og annarra ráðuneyta ef áhugi er fyrir hendi, undir forystu þess fyrst nefnda. Skrifstofan mun hafa nána samvinnu við Íslenska NýOrku og Háskóla Íslands svo og helstu orkufyrirtæki landsins og samtök þeirra.

Á fundi orkuráðherra 14 ríkja ásamt ESB, sem fram fór í Washington þann 21. nóvember sl. staðfesti iðnaðarráðherra þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi á sviði vetnismála (International Partnership for the Hydrogen Economy – IPHE). Á fundinum voru stofnaðar tvær nefndir - stjórnunarnefnd og framkvæmdarnefnd. Óskað var eftir að Ísland tæki að sér formennsku í framkvæmdanefndinni. Var niðurstaðan sú að Þorsteinn I. Sigfússon prófessor var kosinn annar af tveimur formönnum nefndarinnar.