Fréttir


Tveir leiðangrar Norðmanna á Jan Mayen-hrygg

30.6.2011

Norska olíustofnunin stendur að tveimur leiðöngrum á Jan Mayen-hryggnum í sumar. Í báðum leiðöngrunum verða gerðar mælingar að hluta til innan íslenskrar lögsögu á Drekasvæðinu í samvinnu við Orkustofnun.

Í fyrri leiðangrinum, sem hefur staðið yfir síðan 8. júní sl. og lýkur um helgina, eru gerðar hljóðendurvarpsmælingar til að kanna jarðlögin á svæðinu. Þetta eru gögn sem koma til viðbótar við sambærileg gögn sem þegar hefur verið safnað á svæðinu þar sem langt er milli lína.

Í seinni leiðangrinum, sem er áætlað að hefjist 3. júlí n.k., verður fjarstýrður kafbátur með griparmi notaður til að safna stuttum kjörnum og bergsýnum úr hlíðum hryggjanna sem er þarna að finna. Leitast verður eftir að ná sýnum úr eldri jarðlögum sem talið er að nái út í hlíðarnar á vissum stöðum. Rannsóknarskip norsku Hafrannsóknarstofnunarinnar og Háskólans í Bergen, G.O. Sars, verður notað við rannsóknirnar.