Orkustofnun stóð fyrir kynningarfundi vegna olíuleitarútboðs á Drekasvæði í Stafangri í gær.
Í gær, mánudaginn 6. júní var haldinn í Stavanger kynningarfundur Orkustofnunar, í samvinnu við ráðuneyti fjármála og iðnaðar, vegna fyrirhugaðs útboðs á sérleyfum til rannsókna- og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu. Fundinn sóttu m.a. fulltrúar helstu fyrirtækja á sviði olíuleitar á Norður-Atlantshafi.
Á fundinum var útboðið kynnt og gerð grein fyrir fyrirhuguðum breytingum á lagaramma útboðsins, þ.m.t. fyrirkomulagi og skattlagningu.
Orkumálastjóri ávarpaði fundinn og í framhaldi voru haldin eftirfarandi erindi:
- Leyfisútboð á Drekasvæðinu - Þórarinn Sveinn Arnarson, Orkustofnun
- Fyrirhugaðar breytingar á skattaumhverfi olíuvinnslu - Þórður Reynisson, iðnaðarráðuneyti
- Yfirlit yfir meginlandsflísina á Jan Mayen hrygg - Anett Blischke, Ísor
- Jarðfræði á Jan Mayen hrygg - Christian Magnus, Norska olíustofnunin
- Hljóðbylgjumælingar á Jan Mayen hrygg - Jan Dalene, CGGVeritas
Á fundinum kom fram töluverður áhugi fyrirtækjanna og spurningar er vörðuðu útboðið. Í framhaldi voru haldnir sérstakir fundir með fulltrúum einstakra fyrirtækja.
Í dag verða fundir Orkustofnunar og Norsku olíustofnunarinnar. Farið verður yfir þær rannsóknir á svæðinu sem gerðar verða í sumar og önnur atriði vegna útboðsins.