Fréttir


Örnefni umhverfis Ísland í Landgrunnsvefsjá

11.5.2011

Orkustofnun hefur birt örnefni á hafsvæðum og hafsbotni umhverfis Ísland, ásamt nýjum örnefnum á Drekasvæðinu og við Ægisdjúp í Landgrunnsvefsjá. Örnefnin byggja á skýrslum eftir Hauk Jóhannesson sem unnar voru á ÍSOR fyrir Orkustofnun. Annars vegar er um að ræða þekju þar sem örnefnin eru sýnd eins og á hefðbundnu korti og hins vegar punktaþekju með nánari upplýsingum um örnefnin.

Á landgrunnspallinum er til fjöldi örnefna sem sjómenn hafa notað um langan aldur í mörgum tilvikum. Önnur nöfn á þessari slóð hafa orðið til á tuttugustu öld þegar farið var að sækja dýpra. Dýpra og fjær landi vantar oft örnefni til að lýsa landslaginu á hafsbotninum. Til að koma á nafngiftum sem hægt er að vísa til t.d. við rannsóknir á hafsbotninum eru fornar bókmenntir Íslendinga nýttar, með svipuðum hætti og Norðmenn hafa gert. Þó er í mörgum tilvikum tekið tillit til landslags og landforma. Þar sem sett eru nöfn sem virðast ókunnugleg, er reynt að tengja þau með einhverju móti við landslagið. Mörg nöfnin eru úr norrænni goðafræði og því hafa þau alþjóðlega "skýrskotun" einkum hjá þeim þjóðum sem tala germönsk mál. Forðast er að nota nöfn manna síðari tíma í örnefnum nema þar sem þau eru til fyrir.  Örnefnin fyrir Drekasvæðið byggja á Völsungasögu, enda er Fáfnir í Völsungasögu frægasti drekinn í íslenskum fornsögum. Örnefnin fyrir Ægisdjúp byggja á norrænni goðafræði.

Landgrunnsvefsjá

Skýrslur Hauks Jóhannessonar:

Örnefnagjöf á landgrunninu og utan þess - I. Ægisdjúp (2011)
Örnefnagjöf á landgrunninu og utan þess - III. Drekasvæðið (2011)