Fréttir


Eldsneytisspá 2005-2030

7.11.2005

Orkuspárnefnd hefur gefið út endurreikning á eldsneytisspá frá 2001 út frá nýjum gögnum og breyttum forsendum. Þetta er í fyrsta skipti sem eldsneytisspá er endurreiknuð á milli þess sem hún er endurskoðuð frá grunni, en til framtíðar litið er gert ráð fyrir því að gildandi spá verði endurreiknuð einu sinni milli þess sem spáin er endurskoðuð frá grunni sem er á sex ára fresti. Notkunin er greind í innlenda notkun og millilanda noktun og spáð er fyrir um notkun olíu, kola og gas fram til ársins 2030.

Spáin frá 2001 hefur til þessa staðist afar vel. Innlend notkun á olíu var 602 þúsund tonn árið 2004, en spáð hafði verið að hún yrði 585 þúsund tonn. Millilandanotkun var 306 þúsund tonn, en spáð hafði verið að hún yrði 300 þúsund tonn. Millilandanotkunin passar vel við spána árið 2004, en var verulega lægri en spáin gerði ráð fyrir árin 2002 og 2003, enda dróst notkunin mjög saman eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001. Sala innanlands nam 769 þúsund tonnum en spáð var að hún yrði 775 þúsund tonn, erlendis voru tekin 248 þúsund tonn en spáin miðaði við 225 þúsund tonn og erlendir aðilar tóku 110 þúsund tonn en miðað var við 114 þúsund tonn. Kolanotkun var meiri en búist var við eða 157 þúsund tonn í stað 128 þúsund tonna. Gasnotkunin árið 2004 var 2,2 þúsund tonn en spáð var 2,4 þúsund tonna notkun.

Við endurreikning nú eykst innlenda notkunin heldur eða úr 607 þúsund tonnum árið 2030 í 633 þúsund tonn. Millilandanotkunin minnkar úr 501 þúsund tonnum í 479 þúsund tonnum. Hlutur olíu sem notendur kaupa erlendis til millilandanotkunar er nú talinn stærri og er áætlað að tekin verði þar 365 þúsund tonn árið 2030 en í eldri spá var miðað við 344 þúsund tonn. Þetta er í samræmi við aukin umsvið íslenskra félaga í flutningaþjónustu á erlendri grund. Sala til erlendra aðila er einnig áætluð minni árið 2030 en í eldri spá eða 137 þúsund tonn í stað 157 þúsund tonna. Lækkun spárinnar í mörgum flokkum til lengri tíma er í samræmi við að nú er búist við hærra eldsneytisverði til lengri tíma litið en miðað var við árið 2001. Á móti því kemur meiri bifreiðaeign, aukin notkun stóriðju samhliða vexti hennar og meiri notkun fiskiskipa en ráð var fyrir gert.

Eftirtaldir aðilar eiga sæti í eldsneytishópi orkuspárnefndar:

Orkustofnun: Ólafur Pálsson, formaður
Umhverfisstofnun: Birna Hallsdóttir
Sérfræðingur: Magnús Ásgeirsson (starfar hjá Olíufélaginu)
Ritari eldsneytishóps: Jón Vilhjálmsson, Verkfræðistofan AFL

Eldsneytisspá 2005-2030 (pdf)

Heimasíða Orkuspárnefndar