Fréttir


Málþing til minningar um Dr. Guðmund Pálmason

27.10.2005

Guðmundur fæddist 11. júní 1928 og lést 11. mars 2004. Guðmundur nam eðlisfræði í Svíþjóð og Bandaríkjunum, en ævistarf hans sem forstöðumanns Jarðhitadeidar Orkustofnunar sneri að jarðeðlisfræði og nýtingu jarðhita. Málþingið verður haldið á Orkustofnun, Grensásvegi 9, miðvikudaginn 2. nóvember og hefst kl. 13:00.

Rannsóknir hans, sem skýrðu megindrætti í jarðskorpu landsins og gliðnunarbeltum landrekshryggja, öfluðu honum víðtækrar viðurkenningar. Undir forustu Guðmundar urðu miklar framfarir í rannsóknum og nýtingu jarðhita hér á landi sem gerðu Jarðhitadeild Orkustofnunar (nú Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR) að einu fremsta þekkingarsetri heims á sviði jarðhitarannsókna.

Guðmundur tók mjög virkan þátt í alþjóðasamstarfi á sviði jarðhita og jarðskorpurannsókna. Hann var einn af frumkvöðlum stofnunar Alþjóðajarðhitasambandsins 1989. Hann var í fararbroddi við stofnun Jarðhitafélags Íslands árið 2000 og kjörinn fyrsti formaður þess. Í apríl 2003 var hann kjörinn heiðursfélagi Jarðhitafélagsins.  
 
Á málþinginu munu fimm nánir samstarfsmenn hans og vinir fjalla um nokkur sérsvið þar sem Guðmundur markaði mikilsverð spor. Ólafur G. Flóvenz mun ræða um fræðimannin Guðmund, Sveinbjörn Björnsson um hin víðtæku alþjóðasamskipti hans, Valgarður Stefánsson um stjórnandann og Friðrik Ólafsson um skákmanninn Guðmund. Að lokum mun Benedikt Steingrímsson sýna myndir úr lífi og starfi Guðmundar.

Síðasta stórverk Guðmundar var að skrifa bók, sem hann nefndi Jarðhitabók – Eðli og nýting auðlindar. Bókin kom út fyrr á þessu ári hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Bókin er í senn fræðslurit og menningarsöguleg heimild fyrir fróðleiksfúsa lesendur. Í bókinni er rakin framvinda jarðhitarannsókna hér á landi og sagt frá þeim er ruddu þar braut. Fjallað er um uppruna og eðli jarðhitans og margvísleg not af honum í íslensku þjóðlífi. Guðmundur veitir lesendum fræðilega sýn á þá miklu auðlind sem jarðhitinn er og skýrir efnið með fjölda dæma, teikninga og ljósmynda. Þetta er grundvallarrit um eðli jarðhita og nýtingu hans hér á landi. Bókin verður til sýnis og sölu (á tilboðsverði) í kaffihléinu.

Aðgangur að málþinginu er ókeypis og öllum opinn meðan húsrúm leyfir. Þátttakendur eru beðnir að skrá sig á vefsíðu Orkustofnununar eða í síma 5696000.

Að málþinginu standa Jarðhitafélag Íslands, Íslenskar Orkurannsóknir og Orkustofnun.

Dagskrá


12:50     Skráning og afhending gagna
13:10     Setning málþings Ingvar Birgir Friðleifsson, formaður Jarðhitafélags Íslands
13:20     Fræðimaðurinn Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR
14:00     Alþjóðasamskipti  Sveinbjörn Björnsson, sérfræðingur Orkustofnun
14:30     Stjórnandinn  Valgarður Stefánsson, framkvæmdastjóri Alþjóðajarðhitasambandsins
15:00     Kaffihlé
15:30     Skákmaðurinn Friðrik Ólafsson, stórmeistari
16:00     Myndasýning Benedikt Steingrímsson, yfirverkefnisstjóri ÍSOR

Ráðstefnustjóri: Eiríkur Bogason, Samorku, netfang: eirikurb@samorka.is sími: 5884430
Fundarstjóri: Oddur B. Björnsson, Fjarhitun