Fréttir


Úttekt á yfirborðshita í Kerlingarfjöllum og á Hveravöllum

14.9.2005

Meðal verkefna í 2. áfanga Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er yfirlitsrannsókn á jarðhita í Kerlingafjöllum og Hveravöllum á Kili.

Þetta er i fyrsta sinn sem gerð er heildarúttekt á jarðhita eins og hann birtist á yfirborði á þessum svæðum. Draga má þá ályktun af rannsóknunum að búast megi við allt að 290°C á Hveravöllum og um 300 °C í Kerlingafjöllum. Verkefnið var unnið af Íslenskum orkurannsóknum fyrir Orkustofnun.

Hveravellir eru eitt minnsta jarðhitasvæði Íslands, og hefur til þessa verið álitið um 1 ferkílómeter að flatarmáli, en gæti samkvæmt þessum rannsóknum verið rúmlega tvöfalt stærra. Þekktast er hverasvæðið sem er næst skálunum, en það var kannað ítarlega fyrir um áratug. Höfundar skýrslunnar vilja tengja uppruna jarðhitans við Kjalhraunsdyngjuna, en áður hefur verið talið að það tengdist eldstöð sem kennd er við Þjófadali. Rekja má afrennsli af jarðhitasvæðinu a.m.k. norður í Seyðisárdrög.

Einnig er lokið viðnámsmælingum, sem eiga að gefa nákvæmari upplýsingar um útbreiðslu jarðhitasvæðisins og um uppstreymissvæði.

Kerlingafjöll er þekkt háhitasvæði og óvíða á Íslandi er hveravirkni meiri, sem lýsir sér í óvenju þéttstæðum laugum, hverum og gufuaugum.  Greina má þrjú afmörkuð jarðhitasvæði. Aðalhverasvæðið er  í Neðri Hveradölum, annað í framhaldi af því í Efri Hveradölum, og hið þriðja í tiltölulega afmarkaðri þyrpingu nokkru vestar.

Á þessu svæði hefur einnig verið lokið við mælingar á eðlisviðnámi, og gert ráð fyrir úrvinnslu á komandi vetri. Margt bendir til þess að svæðið sé fremur lítið og vel afmarkað innan askjanna. Í borunum við Skíðaskálann í Hveradölum hefur aðeins fengist volgt vatn.

Skýrslur um rannsóknirnar er hægt að nálgast Bókasafni Orkustofnunar.

Hveravellir : könnun og kortlagning háhitasvæðis (6560 k)

Kerlingafjöll : könnun og kortlagning háhitasvæðis (2994 k)