Fréttir


Raforkuspá 2005-2030 - Orkuspárnefnd hefur gefið út nýja spá um raforkunotkun

24.8.2005

Orkuspárnefnd hefur gefið út nýja spá um raforkunotkun hér á landi næsta aldarfjórðung en síðast gaf nefndin út slíka spá árið 1997. Mesta breytingin á spánni núna er að áætluð notkun stóriðju er mun meiri en gert var ráð fyrir í eldri spá enda er einungis tekið tillit til samninga sem gerðir hafa verið um slíka orkusölu þegar spáin er gerð.

Á næstu árum vex þessi notkun um 7.300 GWh og verður komin í 80% af allri raforkunotkun á landinu árið 2009.  Spá um almenna notkun hefur staðist vel á undaförnum árum en þó hefur notkunin allra síðustu ár aukist heldur hraðar en ráð var fyrir gert enda hefur hagvöxtur verið mun meiri en búist var við í spánni frá 1997.

Almenn heimilisnotkun utan rafhitunar hefur vaxið hraðar en ráð var fyrir gert en á síðasta áratug hefur hún aukist úr 3,5 MWh/heimili í 4,4 MWh/heimili. Helstu orsakir hækkunarinnar eru að tækjum hefur fjölgað mikið á heimilum á þessu tímabili svo sem sjónvörpum og tölvum og algengt er að þau séu höfð í biðstöðu fremur en að slökkt sé á þeim, en það kallar á nokkra raforkunotkun. Einnig hefur vægi raforku í útgjöldum heimila minnkað og af þeim sökum minni hvati til að spara orkuna en áður. Áfram er gert ráð fyrir aukningu í notkun heimila og að hún verði komin í 5,0 MWh/heimili eftir áratug en standi í stað eftir það.  Á spátímabilinu er búist við verulegri fjölgun fólks eldra en 40 ára sem gerir það að verkum að heimilum fjölgar hlutfallslega meira en landsmönnum sem kallar á aukna raforkunotkun.  

Í atvinnustarfsemi utan stóriðju hefur raforkunotkun vaxið hraðast í þjónustu svo sem í smásöluverslun en í opinberri þjónustu hefur orði mest aukning í skólum og íþróttamannvirkjum sem rekja má til uppbyggingar heilsdagsskóla.

Rafskautakötlum hefur fjölgað nokkuð á undanförnum árum í fiskimjölsverksmiðjum og á þann hátt hafur raforka komið í stað olíu og gert er ráð fyrir nokkurri aukningu á því sviði á næstu árum. Mikil aukning hefur verið í raforkunotkun við byggingastarfsemi á síðasta ári sökum virkjana og stóriðjuframkvæmda á Austurlandi en sú notkun nær hámarki árið 2006. Heildarnotkunin við þær framkvæmdir er áætluð 310 GWh en það er álíka mikil orka og 70.000 heimili nota á einu ári.

Að orkuspárnefnd standa auk Orkustofnunar, Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytis, Fasteignamat ríkisins, Hagstofa Íslands og Samorka.

Nánari upplýsingar um raforkuspá veitir Þorkell Helgason, orkumálastjóri, formaður orkuspárnefndar, sími: 569 6000.

Á heimasíðu orkuspárnefndar er að finna raforkuspána í heild sinni og útdrátt úr henni.

Raforkuspá
Útdráttur úr raforkuspá
Heimasíða Orkuspárnefndar