Fréttir


Álitsgerð faghóps um sjálfbæra nýtingu jarðhita komin út.

18.4.2011

Faghópur um sjálfbæra nýtingu jarðhita hefur nú skilað til verkefnisstjórnar rammáætlunar álitsgerð sinni.

Faghópur um sjálfbæra nýtingu jarðhita var skipaður af Orkustofnun og verkefnis­stjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þann 28. mars 2008. Samkvæmt skipunarbréfi átti faghópurinn að skilgreina og meta sjálfbæra jarðhita­vinnslu og sjálfbæra jarðhitanýtingu, gera tillögur um hvernig haga beri nýtingu jarðhita til lengri tíma litið og semja drög að reglum er hafi það að markmiði að tryggja sjálfbæra jarðhitanýtingu. Til þess var lagt mat á eðli og flokkun jarðhitakerfa, orkuforða þeirra, endurnýjanleika auðlindarinnar og vinnslureynslu síðustu áratuga á Íslandi. Þá skoðaði faghópurinn viðeigandi alþjóðasamninga sem Ísland á aðild að. 

Sjálfbær jarðhitanýting tekur til allra þriggja meginstoða sjálfbærrar þróunar, þ.e. samfélags, efnahags og umhverfis. Sterk sjálfbær jarðhitanýting krefst m.a. sjálfbærrar jarðhitavinnslu (e. sustainable yield) á sérhverju jarðhitasvæði sem felur í sér að með ákveðnu vinnslustigi sé hægt að viðhalda óbreyttri orkuvinnslu úr jarðhitakerfinu í að minnsta kosti 100 ár.

Í samræmi við Brundtland-skilgreininguna og Ríó-yfirlýsinguna hefur faghópurinn sett fram tillögu að 10 markmiðum sjálfbærrar jarðhitanýtingar með sterka sjálfbærni að leiðarljósi, sem felur í sér að nýtingin hafi ekki neikvæð áhrif á neina af meginstoðum sjálfbærrar þróunar, þ.e. samfélags, efnahags eða umhverfis. Veik sjálfbærni leyfir rýrnun einhverra meginstoðanna, t.d. með lotubundinni vinnslu, enda skili nýtingin í heildina jákvæðum samfélagslegum ábata. Fyrstu tvö markmiðin fjalla um nýtingu auðlindarinnar og endurnýjanleika hennar. Þriðja markmiðið um umhverfisstjórnun, fjórða um nýtni, það fimmta um efnahagsstjórnun og það sjötta og sjöunda um arð og afhendingaröryggi. Áttunda markmiðið fjallar um samfélagsáhrif. Níunda markmiðið og það tíunda fjalla um rannsóknir, nýsköpun og miðlun þekkingar.

Jarðhitinn átti stóran þátt í að bæta lífsskilyrði íslensku þjóðarinnar á síðustu öld, en um leið hafði hann mótandi áhrif á félagslega þætti. Þróun séríslenskrar sundmenn-ingar, myndun byggðakjarna á jarðhitasvæðum og vöxtur alþjóðlega viðurkennds þekkingarsamfélags eru allt þættir sem hafa haft félagsleg áhrif. Efnahagsáhrif nýtingar jarðhita á þjóðarbúið eru án nokkurs vafa umtalsverð eins og nánar er gerð grein fyrir, hvort sem litið er til raforkuvinnslu, húshitunar eða annarrar nýtingar. Auk efnahagslegs ábata hefur hitaveituvæðingin skilað heilsufarslegum ávinningi, treyst öryggi og sjálfstæði landsins og veitt fjölbreytt tækifæri svo sem til fiskeldis, ylræktar, þurrkunar og snjóbræðslu. Af ofangreindu verður ekki annað séð en að áhrif jarðhita­nýtingar séu að mestu leyti mjög jákvæð með tilliti til félags-, efnahags- og umhverfisþátta. Umhverfisáhrif jarðhitavinnslu geta þó einnig verið neikvæð þótt mótvægisaðgerðir bæti þar um. Á lághitasvæðum geta hverir og laugar horfið og á háhitasvæðum geta jarðvarmavirkjanir haft áhrif á útivist eins og öll mannvirki. Fjölnýting jarðhitans hefur þó leitt af sér vinsæla ferðamannastaði.

Nægilegar upplýsingar um auðlindina eru forsenda skynsamlegrar auðlindastjórnunar. Ef tryggja á sjálfbæra jarðhitavinnslu telur faghópurinn það skyldu ríkisins að tryggja að auðlindastýring sé markviss og skynsamleg, úthlutun leyfa sé á jafnréttisgrundvelli og að hagsmunir heildarinnar ráði langtímastefnumörkun á þessu sviði. Upplýsingar um auðlindina fást með rannsóknum, og kröfunni um virka auðlindastýringu ríkisins fylgir að ríkið kosti nægilegar rannsóknir til að auðlindastýringin verði fagleg og markviss. Með því er líklegra að yfirvöld hafi þá yfirsýn sem þarf til þess að tryggja langtímahagsmuni Íslendinga í orkumálum.

ÁLITSGERÐ FAGHÓPS UM SJÁLFBÆRA NÝTINGU JARÐHITA Í HEILD SINNI.