Fréttir


Sögulegt yfirlit gaslosunar frá jarðvarmavirkjunum

12.4.2011

Orkustofnun hefur nú gefið út skýrsluna Gaslosun jarðvarmavirkjana á Íslandi 1970-2009. Höfundar skýrslunnar eru Ívar Baldvinsson, Þóra H. Þórisdóttir og Jónas Ketilsson. Nálgast má skýrsluna í heild sinni hér á vef Orkustofnunar.

gaslosunOrkustofnun hefur tekið saman mat á losun koldíoxíðs og brennisteinsvetnis frá jarðvarmavirkjunum á tímabilinu 1970 til og með 2009. Þá var gerð samantekt á helstu lögum og reglugerðum er varða eftirlitshlutverk Orkustofnunar með gaslosun frá jarðvarmavirkjunum. Í ljósi þess hefur Orkustofnun gert grein fyrir aðferðafræði hvers orkufyrirtækis fyrir sig við mat á gaslosun og þeim breytingum sem þar hafa orðið á nýlega. Þá voru eldri gögn endurskoðuð með tilliti til þessara breytinga. Orkustofnun telur að það væri til bóta að semja verklagsreglur til handa orkufyrirtækjunum sem leiðbeinandi stjórnvald á þessu sviði. 

 

Mynd 1: Samanburður á losun koldíoxíðs við raforkuvinnslu fyrir                                                                                            mismunandi orkugjafa. Erlend gögn byggð á Bloomfield o.fl. (2003.

Árið 2008 var losun koldíoxíðs frá jarðvarmavirkjunum aðeins um 4% af heildarútblæstri allra gróðurhúsalofftegunda á Íslandi. Árið 2009 nam heildarútblástur koldíoxíðs frá jarðvarmavirkjunum 168.293 tonnum, eða um 9% minna en árið 2008. Heildarútblástur brennisteinsvetnis nam 28.069 tonnum árið 2009 og minnkaði um 10% frá 2008. Meðalgaslosun á hverja kílowattstund unna af jarðvarmavirkjunum nam 50 g CO2/kWh og 6 g H2S/kWh árið 2009. Meðallosun koldíoxíðs á hverja kílówattstund unna hefur almennt farið lækkandi síðastliðin 15 ár. Jarðvarmavirkjanir á Íslandi losa því um 19 sinnum minna af CO2/kWh en hefðbundin kolaorkuver eins og sjá má á mynd 1.

SKÝRSLAN Í HEILD SINNI