Fréttir


Sendinefnd frá Nikaragúa kynnir sér orkumál á Íslandi

22.8.2005

Þrír fulltrúar frá stjórnvöldum í Nikaragúa eru hér á landi á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.  Orkustofnun, Íslenskar orkurannsóknir og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið munu aðstoða við að kynna sendinefndinni fyrirkomulag jarðhitamála hér á landi. Auk þess að skoða jarðhitanýtingu sérstaklega, verður kynning á  íslenskri löggjöf um auðlindanýtingu, raforkumál og  mat á umhverfisáhrifum.
frett_22082005

Mánudaginn 22. ágúst var sendinefndin í heimsókn í Orkugarði þar sem orkumálastjóri fór yfir orkumál landsins almennt  auk þess sem starfsemi Íslenskra orkurannsókna (Ísor) og Jarðhita Háskóla Sameinuðu þjóðanna var kynnt. Gestirnir munu einnig fara á jarðhitasvæðin á Nesjavöllum og Hellisheiði undir leiðsögn Ísor.

Stjórnvöld í Nikaragúa óskuðu sérstaklega eftir samvinnu við Íslendinga á sviði jarðhitamála eftir að stjórn ÞSSÍ samþykkti í lok árs 2004 að ganga til þróunarsamstarfs við landið í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um verulega aukningu á framlögum Íslendinga til þróunarmála á næstu árum.
Þróunarsamvinnustofnun stefnir á að hefja starfsemi í Nikaragúa í byrjun næsta árs. Er þessi heimsókn undirbúningur að þeirri starfsemi.

Nánar má lesa um heimsóknina og ástandið í Nikaragúa á heimasíðu Þróunarsamvinnustofnunar: www.iceida.is/frettir/nr/312
Íslenskar orkurannsóknir: www.isor.is
Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna: www.unugtp.is