Fréttir


Flóð í jökulám vegna sumarhita

26.7.2005

Í kjölfar hlýinda á hálendinu undanfarna daga, einkum austanlands, hefur rennsli farið stigvaxandi í helstu jökulám.

Hlutfallslega mest hefur vaxið í Jökulsá á Fjöllum, og á mælistað við Upptyppinga ofan Herðubreiðarlinda hefur rennsli farið yfir 500 m3/s, sem er meira en áður hefur mælst þar í júlímánuði, eða svo nemur meira en þreföldu meðalrennsli þess mánaðar.

Einnig er mikið rennsli í Þjórsá og Jökulsá á Dal, eða allt að því tvöfalt meðalrennsli í júlí. Hins vegar eru Ölfusá, Skjálfandafljót og Tungnaá allar nálægt meðallagi í rennsli. Frekari upplýsingar um rennsli, vatnshita og leiðni frá símatengdu mælakerfi Vatnamælinga Orkustofnunar má finna á vef stofnunarinnar, og eru þær yfirleitt uppfærðar daglega og stundum oftar. Símasamband getur þó sumstaðar verið lélegt á stundum eða bilanir orðið á stöku stað, sem tefur þá tímabundið fyrir uppfærslu gagna. Á vefnum eru nú birt gögn frá um 50 símatengdum stöðvum víða um land, og er stöðugt unnið að því að fjölga stöðvum í því kerfi.

Vatnamælingar Orkustofnunar, 26. júlí 2005, netfang vm@os.is.