Fréttir


Heimarafstöðvar eru víða um land

22.7.2005

Á fyrri hluta síðustu aldar voru byggðar margar heimarafstöðvar víða um land með virkjun vatnsafls. Flestar voru þær minni en 30 kW og raforkan nýtt til eigin þarfa.

Talið er að um miðja síðustu öld hafi verið um 530 heimarafstöðvar, en þeim fór síðan fækkandi samfara rafvæðingu sveitanna. Í dag eru virkar heimarafstöðvar í kringum 200 vítt og breitt um landið. Starfsmaður Orkustofnunar hefur að undanförnu heimsótt bændur á Norðurlandi sem eru með heimarafstöðvar og njóta niðurgreiðslna vegna hitunar íbúðarhúsnæðis með rafmagni framleiddu í rafstöðinni. Flestar eru þessar rafstöðvar komnar til ára sinna en þjóna enn tilgangi sínum þrátt fyrir það.

Í Svartárkoti í Bárðardal er gömul virkjun sem byggð var árið 1953 og er hún staðsett þar sem Svartá byrjar að renna úr Svartárvatni. Ný virkjun var byggð örlítið fjær Svartárvatni árið 1975. Þessi nýja virkjun getur framleitt allt að 30 kW . Fallhæðin er 1,5 til 1,8 metrar og vatnsmagnið er talið vera um 2,5 til 3 m3 á sekúndu. Hverfillinn (túrbínan) er af Kaplangerð sem er líklega þekktasta túrbínan af ástreymisgerð. En ástreymishverflar eru gerðar fyrir mikið rennsli og litla fallhæð og vatnshjólið minnir á skipsskrúfu.  Þessi virkjun sér þremur íbúðarhúsum fyrir öllu því rafmagni sem þær þurfa til lýsingar og hitunar sem og í útihúsum og vélageymslum.

Á næstunni mun Orkustofnun birta reglulega fréttir af heimarafstöðvum ásamt myndum af þeim.

Í Gagnavefsjá Orkustofnunar og Ísor eru upplýsingar um heimarafstöðvar.