Fréttir


Verkefni lokið sem hlaut styrk úr Orkustjóði 2003

13.7.2005

Lokaskýrslu ÍSOR vegna TEM mælinga í Öxarfirði hefur nú verið skilað til Orkusjóðs.

Helstu niðurstöður urðu þær að jarðhiti kemur upp á nokkrum stöðum í Öxarfirði, með virkum brotum í sprungukerfi, sem er framhald sprungukerfisins við Kröflu. Mestu uppstreymisrásirnar eru annars vegar við Bakkahlaup, allnokkru vestan við borholurnar, svo og suðaustan við Skógalón. Einnig eru vísbendingar um minni uppstreymisrásir á fjórum öðrum stöðum. Vatnið kemur upp um rásirnar og rennur síðan lárétt út frá þeim í setlögum, sem eru á 300-500 metra dýpi. Jarðhitinn í Öxarfirði getur ekki talist til hefðbundinna háhitakerfa en hefur heldur ekki helstu einkenni lághitakerfa. Hann er því einskonar millistig milli kerfa, sem best má lýsa sem litlum staðbundnum háhitablettum þar sem hitinn nær e.t.v. um 200°C en vart mikið þar yfir. Kringum þessa háhitabletti eru síðan svæði, sem bera ýmis einkenni vatnsmikilla lághitasvæða.