Fréttir


Hagkvæmni varmadælna könnuð í Vík

8.7.2005

Orkustofnun og Mýrdalshreppur hafa gert samning við Fjarhitun hf. um að kanna möguleika á því að nota varmadælur til húshitunar í Vík í Mýrdal.

Verkefnið felst m.a. í forathugun á því hvort fjárhagslega hagkvæmt sé að ráðast í hönnun og byggingu hitaveitu sem notar varmadælur. Varmadælur henta vel þar sem aðgangur er að volgu vatni sem ekki er nægilega heitt til að hægt sé að nýta það beint til húshitunar.

Árið 1986 var borað eftir heitu vatni í Vík en borunin skilaði litlum árangri. Árið 1995 var ákveðið að dýpka og örva holuna frá 1986 og var þá borað niður á um 1350 m dýpi. Sú aðgerð skilaði heldur ekki þeim árangri sem vænst var, en þó fæst úr holunni talsvert af  47°C heitu vatni við dælingu af um 300 m dýpi.  Vatnið er notað til að hita sundlaug og íþróttahús en er tæpast nægjanlegt yfir kaldasta tíma ársins.   

Reynist varmadæluhugmyndin raunhæf er gert ráð fyrir að bora nýja holu niður á 300-500 m dýpi fyrir varmadæluna, sem áætlað er að gefi um 20-30°C heitt vatn.

Í forsendum um verkefnið segir: Í samræmi við lög um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar vinnur Orkustofnun að því að kanna hagkvæmni þess að nýta varmadælur til húshitunar hér á landi. Auk þess að kanna almennt hagkvæmni varmadælna er ætlunin að skoða sérstaklega þéttbýlisstaði þar sem hægt er að ná í volgt vatn sem gæti nýst sem varmagjafi fyrir stórar varmadælur í tengslum við dreifikerfi fyrir heitt vatn (hitaveitu).

Heimasíða Mýrdalshrepps